Slagverkstríóið áfram í Hörpu

Þrír slagverksnemendur úr Tónlistarskóla Árnesinga komust áfram á lokatónleika Nótunnar, eftir svæðistónleika sem fram fóru á Selfossi um síðustu helgi.

Svæðistónleikar Nótunnar, fyrir Suðurland, Suðurnes og Kragann, fóru fram í Fjölbrautaskóla Suðurlands síðastliðinn laugardag. Nemendur tónlistarskólanna kepptu þar um að leika á lokatónleikum Nótunnar.

Flytjendur stóðu sig allir með mikilli prýði og gaman að sjá og heyra nemendur flytja fjölbreytta og metnaðarfulla dagskrá. Sjö atriði voru valin til þátttöku á lokatónleikum Nótunnar.

Meðal þeirra sem þangað fara eru þrír slagverksnemendur Stefáns I. Þórhallssonar úr Tónlistarskóla Árnesinga, þeir Birkir Pétursson, Njáll Laugdal Árnason og Arnar Freyr Guðmundsson. Þeir fluttu frumsamið verk sem heitir Flug 4342, en það byggir á hrynjanda íslensku þjóðlaganna.

Var flutningurinn einstaklega fágaður og náðu strákarnir að fanga alla viðstadda með leik sínum. Það verður spennandi að fylgjast með þeim á lokatónleikunum í Hörpu þann 14. apríl.

Fyrri greinGlundroði aftur í úrslit
Næsta greinNámskeið fyrir stjórnendur neyðaraðgerða