Sýningin Snertipunktar verður opnuð í Listasafni Árnesinga í Hveragerði kl. 14 í dag, á íslenska safnadeginum.
Anna Eyjólfsdóttir, Birgir Snæbjörn Birgisson, Helgi Hjaltalín Eyjólfsson, Helgi Þorgils Friðjónsson, Ragnhildur Stefánsdóttir, Þórdís Alda Sigurðardóttir og Þuríður Sigurðardóttir eru höfundar listaverkanna á sýningunni.
Listamennirnir hafa sýnt verk sín sem sem tveir aðskildir listamannahópar bæði hér á landi og erlendis auk þess að standa fyrir rekstri sýningarýma. Annar hópurinn samanstendur af Önnu, Ragnhildi, Þórdísi Öldu og Þuríði, sem voru stofnendur StartArt gallerísins við Laugaveginn og ráku það ásamt fleirum á árunum 2007-2009. Hinn hópurinn samastendur af Birgi Snæbirni, Helga Hjaltalín og Helga Þorgils. Um tíma rak Helgi Hjaltalín galleríið 20m2, Helgi Þorgils hefur rekið Gallerí Ganginn heima hjá sér í þrjá áratugi og Birgir Snæbjörn Gallerí Skilti við sitt heimili frá árinu 2007.
Viðfangsefni og efnisnotkun þessarra listamanna er ólík og endurspeglar gróskuna í íslenskri samtímamyndlist. Allir listamennirnir eiga það sameiginlegt að hafa verið virkir í íslensku listalífi og jafnframt skapað sér vettvang erlendis.
Sýningarstjóri er Selfyssingurinn Margrét Elísabet Ólafsdóttir, list- og fagurfræðingur. Hún hefur valið saman verk á sýninguna og ritar einnig grein í sýningaskrá þar sem hún fjallar um félagslegt samhengi myndlistar í sögulegu ljósi og veltir fyrir sér starfsumhverfi íslenskra myndlistarmanna.
Söfnin í landinu hafa frá árinu 1997 tileinkað sér annan sunnudaginn í júlí til þess að vekja athygli á því fjölbreytta starfi sem þar fer fram. Áhersla Íslenska safnadagsins er jafnan á söfnin sem vænlegan áfangastað fyrir fjölskylduna en einnig er athygli vakin á þeirri faglegu starfsemi sem þar fer fram svo sem varðveislu og miðlun. Íslensku safnaverðlaunin sem veitt eru annað hvert ár voru nú veitt menningar gagnagrunninum www.sarpur.is sem 50 íslensk söfn eru aðilar að. Listasafn Árnesinga er aðili að Sarp og unnið er að því að birta þar upplýsingar um safneignina.
Sýningin Snertipunktar mun standa til 14. september. Listasafn Árnesinga er opið alla daga kl. 12 – 18. Aðgangur að safninu er ókeypis, allir velkomnir og góð aðstaða fyrir börn.