Sökkva sér í þýska ’80s hljóðheiminn í nýju lagi

Hr. Eydís kom fram á Kótelettunni og var vel fagnað. Ljósmynd/Aðsend

Hljómsveitin Hr. Eydís, sem sérhæfir sig í bestu ‘80s lögunum, hefur nú sent frá sér sitt annað frumsamda lag. Margir þekkja sveitina af YouTube þar sem hún hleður upp ´80s ábreiðum sínum.

Nýja frumsamda lagið heitir Fortíðarþrá og útsetningin og lagið vísar sterkt í áhrif þessa skemmtilega og skrautlega áratugar.

Örlygur Smári, söngvari og gítarleikari Hr. Eydís, syngur lagið ásamt hinni landsþekktu söngkonu Ernu Hrönn. Örlygur hefur eins og einhverjir vita samið og útsett lög fyrir marga af þekktustu tónlistarmönnum þjóðarinnar, ásamt því að semja Eurovision-framlag Íslands í fjórgang. Hann hefur þó ekki sungið sitt eigið lag í rétt tæp tuttugu og fimm ár… þar til núna.

„Hljómsveitina langaði að bregða á leik og láta lagið hljóma eins ´80s og hægt væri og hvað er meira ´80s en Modern Talking? Það er sko enginn feluleikur að lagið er innblásið af þýska tvíeykinu sem tröllreið vinsældarlistum um heim allan um miðjan níunda áratuginn,“ sagði Örlygur Smári í samtali við sunnlenska.is.

„Það var skemmtilegt ferðalag að koma þessum þýska hljóðheim Modern Talking í lagið. Við tókum okkur nokkra daga og hlustuðum á Brother Louie, Cheri Cheri Lady og fleiri góð. Það er hægt að gera margt leiðinlegra en að hlusta á þessa gömlu þýsku ´80s smelli. Ég málaði reyndar forstofuna á sama tíma sem kom líka svona ljómandi vel út,“ segir Örlygur hlæjandi að lokum.

Hlustaðu á lagið hér fyrir neðan.

Fyrri greinSesar skaut Selfyssingum í undanúrslitin
Næsta greinJóhanna Ýr ráðin framkvæmdastjóri Lágafellssóknar