Stór og flottur hópur íbúa Sólheima og nágrennis frumsýnir á morgun leikritið um hinn friðsæla Kardimommubæ og fólkið þar eftir Thorbjörn Egner.
Frumsýning er að venju á sumardaginn fyrsta kl. 15:00 í Íþróttaleikhúsinu á Sólheimum. Leikstjóri er Þórný Björk Jakobsdóttir sem einnig staðfærir verkið.
Ræningjarnir Kasper, Jesper og Jónatan búa fyrir utan bæinn en fara reglulega í ránsferðir. Þeir ræna Soffíu frænku til að létta undir hjá sér við eldamennsku og þrif en þau áform breytast. Þeir fara í fangelsi eftir eina ránsferðina, koma út betri menn og verða hetjur þegar þeir slökkva eld í turni bæjarins.
Áætlað er að sýna á laugardögum og sunnudögum en lokasýningin er þriðjudaginn 1. maí.