Söngleikur settur á svið í Rauða Húsinu

Frá æfingu á verkinu Stöndum saman. Ljósmynd/Aðsend

Það er mikið um að vera í leikhúslífinu á Eyrarbakka þessa dagana. Leikfélag Eyrarbakka hefur æft söng- og gleðileikinn Stöndum saman eftir Huldu Ólafsdóttur, í leikstjórn hennar, undanfarnar vikur en hann verður settur á svið í apríl.

Sýningar fara fram í Rauða Húsinu á Eyrarbakka og frumsýning er 10. apríl. Verkið fjallar um ungt par sem glímir við margar af þeim áskorunum sem lífið geymir; ástarsambönd, foreldrahlutverk, tengsl við fjölskyldu, húsnæðiskaup, vinnuálag og amstur hversdagsins. Verkið er hnyttið og stútfullt af tónlist með dramatískum undirtóni sem margir geta speglað sig í.

Leikfélagið á Eyrarbakka var endurvakið á síðasta ári eftir áratugalangt hlé. Það var upphaflega stofnað fyrir rúmum 80 árum og setti upp vinsælar sýningar, svo sem Lénharð fógeta eftir Einar H. Kvaran. Í fyrra var leikritið Einu sinni á Eyrarbakka eftir Huldu Ólafsdóttur, Guðmund Brynjólfsson og Sellu Páls sett svið og vakti mikla lukku. Nú er komið að næstu sýningu og leikfélagið hefur aldrei verið kraftmeira.

Hulda Ólafsdóttir, höfundur og leikstjóri verksins. Ljósmynd/Aðsend

Söngleikur með hjarta og húmor
Stöndum saman er leikrit þar sem gleði og alvara haldast í hendur. Sagan fjallar um ungt par sem reynir að láta drauma sína rætast í miðri ringulreið lífsins. Afar, ömmur og önnur skyldmenni reyna að hjálpa til eftir bestu getu, en eins og gengur getur gæfan verið fallvölt. Sýningin lifnar við í þessari lífsins flækju með húmorinn að leiðarljósi. Stöndum saman er ekki bara leikrit heldur spegilmynd af samfélaginu. Persónurnar eru mannlegar, láta reyna á hlutina, gera mistök, rísa upp á ný, reyna að halda í gleðina og standa saman þegar mest á reynir.

Ljósmynd/Aðsend

Nýtt líf í gömlum veggjum Rauða hússins
Sýningin fer fram í veislusalnum á annarri hæð í hinu sögufræga Rauða húsi á Eyrarbakka. Húsnæðið hefur einstakan karakter og hentar verkinu fullkomlega. Áhorfendur eru í mikilli nálægð við leikara, söngvara og hljóðfæraleikara þannig að upplifunin verður sterk. Þegar verkið var frumsýnt fyrir rúmum 30 árum í Keflavík var það sýnt á veitingastað og Hulda segir verkið henta vel fyrir rými sem þessi.

Í sýningunni eru rúmlega 30 þjóðþekkt lög með nýjum textum eftir Huldu Ólafsdóttur, og eitt frumsamið lag sem píanóleikarinn Jón Aron Lundberg samdi út frá texta höfundar. Tónlistin dregur fram gleðina og tilfinningarnar í verkinu og hefur Jón Aron verið lykilmaður í tónlistarvinnu hópsins.

Ljósmynd/Aðsend

Sterk liðsheild – fjölbreyttur hópur með eitt markmið
Alls koma 17 leikarar fram í sýningunni auk píanóleikara. Fjöldi annarra aðstoðar við framleiðsluna, hvort sem um er að ræða leikmunagerð, smink, ljósmyndun eða tækniaðstoð. Hópurinn small saman frá fyrsta degi og er samheldinn, fjölhæfur og staðráðinn í að gera sýninguna sem flottasta.

Æfingar hafa gengið vel, þrátt fyrir að margir í hópnum séu í vinnu, námi eða með fjölskyldu. Sú áskorun að púsla hlutunum saman endurspeglar einmitt kjarnann í sýningunni sjálfri, þar sem persónur takast á við rússíbanareið lífsins með bjartsýnina að vopni.

Ljósmynd/Aðsend

Frumsýning og leikhúskvöld með stemningu
Stöndum saman verður sem fyrr segir frumsýnt þann 10. apríl í Rauða húsinu á Eyrarbakka og verða sýningar í apríl og þangað til í byrjun maí. Að auki verður í boði sérvalinn leikhúsmatseðill á Rauða Húsinu fyrir sýningar og tilvalið að hefja kvöldið á gómsætri máltíð áður en stigið er inn í heim leikhústöfranna.

Hægt er að ná sér í miða á Tix.

Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinHamar úr leik eftir framlengingu
Næsta greinFjórir Tungnamenn heiðraðir af UMFÍ