„Sörur hinnar uppteknu húsmóður“ eru ómissandi á jólunum

Kristjana Stefánsdóttir.

Söngdívan Kristjana Stefánsdóttir er ein þeirra sem kemur fram í aðventutónleikaröð á Hendur í höfn. Næstkomandi laugardagskvöld, 8. desember kl. 21:00 mun hún syngja sín uppáhalds jólalög.

Henni til halds og trausts verða Þorlákshafnarbúinn Tómas Jónsson á hammond og rhodes og kontrabassaleikarinn Þórður Högnason.

Við ákváðum að heyra í Kristjönu að þessu tilefni og fá að vita hver væri hennar uppáhalds jólasmákökuuppskrift og hvort hún væri til í að deila henni með lesendum sunnlenska.is og það stóð ekki á svörum.

„Jólin hjá mér hafa alltaf verið tilraunatími nýrra uppskrifta og þar sem að ég er alltaf frekar upptekin í desember þá er gott að hafa hlutina einfalda og þægilega. En ég rakst einmitt á frábæra aðferð til þess að búa til Sörur fyrir sirka fimm árum og er þetta eina uppskriftin sem er ómissandi hjá okkur á jólunum og hefur hentað okkur afskaplega vel en þær kallast Sörur hinnar uppteknu húsmóður.”

Sem fyrr segir hefjast tónleikarnir á laugardagskvöld kl. 21 og er mælt með því að kaupa miða í tíma á midi.is þar sem reynslan sýnir að oftast selst upp á tónleikana á Hendur í höfn. Staðurinn skartar nú sínu fegursta enda íklæddur fallegum og tímalausum jólaskreytingum.

Aðventuseðillinn hefur aldrei verið glæsilegri en þar má finna dýrindis veitingar með jólalegu ívafi, smurbrauðsdásemdir og margt fleira.

Tilvalið er fyrir fjölskyldur, vini og fyrirtæki að gera sér gott kvöld á aðventunni í Þorlákshöfn. Það þarf ekki að leita langt yfir skammt til þessa að eiga jólaupplifun eins og hún gerist best. Borðapantanir á hendurihofn@hendurihofn.is

Sara Bernhardt í ofnskúffu

Möndlubotn:
400 g möndlur
400 g sykur
4 tsk lyftiduft
6 eggjahvítur

Súkkulaðikrem:
250 g smjör
200 g flórsykur
6 eggjarauður
4 tsk kakó
2 tsk vanillusykur/dropar

Súkkulaðiglassúr:
200 g suðusúkkulaði
2msk smjör 

Möndlubotn:
Malið möndlurnar (ég kaupi möndlur með hýði og mala þær svo bara í blandaranum). Blandið svo lyftidufti saman við möndlurnar.

Stífþeytið eggjahvítur og blandið sykrinum við í smáum skömmtum.

Þekjið ofnskúffu (ca 30x40cm) með bökunarpappír og dreifið deginu jafn í ofnskúffuna. Bakið í miðjum ofni á 175°C í 20 mínútur

Kælið botnin vel, ca ½ til 1 klst ætti að duga.

Súkkulaðikrem:
Þeytið smjör og flórsykur saman. Þeytið svo eggjarauður saman við þar til verður úr mjúkt smjörkrem. Þeytið að lokum saman við kakó og vanillusykur/dropa.

Smyrjið svo kreminu jafn yfir botnin. Athugið að mikilvægt er að botnin sé allveg orðinn kaldur þegar súkkulaðikreminu er dreift yfir. Svo skal kæla aftur vel. Annað hvort í frysti, ísskáp, eða bara á köldum stað í húsinu.

Súkkulaðiglassúr:
Bræðið smjörið og súkkulaðið saman. Dreifið blöndunni svo yfir kalda kökuna í þunnu lagi. Svo skal kæla í síðasta sinn. Að lokum er dýrðin svo skorin í hæfilega stóra bita eftir smekk eins og skúffukaka. Geymist vel í frysti.

Fyrri grein„Hægur vindur og allir vegir auðir“
Næsta grein„Þurfum að leita leiða til að Landeyingar komist leiðar sinnar“