Spámennirnir í Botnleysufirði verða í aðalhlutverki á upplestrarkvöldi í Bókakaffinu á Selfossi fimmtudagskvöldið 26. nóvember.
Það er þó ekki svo að húsið fyllist af grænlenskum spámönnum en bók með þessu nafni kom út nú í haust og hefur fengið frábæra dóma. Hér er á ferðinni verðlaunabók danska rithöfundarins Kim Leine en sögusviðið er Grænland 18. aldar þar sem búa saman án samlyndis dönsk herraþjóð og grænlenskir heiðingjar. Sagt verður frá þessu merka verki sem farið hefur sigurför um heiminn og Harpa Rún Kristjánsson bókmenntafræðingur les stuttan kafla.
Auk þessa verða eftirtaldir höfundar á staðnum og lesa úr bókum sínum:
Ari Trausti Guðmundsson: Fardagar. Ljóðabók.
Ása Marín: Vegur vindsins. Ferðasaga af Jakobsveginum.
Bjarki Bjarnason: Spiritus fossis. Skáldsaga.
J.K. Kolsöe: Amma óþekka og tröllin í fjöllunum. Barnabók.
Jón Hjartarson: Ofríki. Heimildasaga.
Sigurgeir skar’ann. Sjálfsævisaga Sigurgeirs Kjartanssonar læknis.
Vilborg Bjarkadóttir: Með brjóstin úti. Ljóðabók.
Húsið verður opnað klukkan átta og lestur hefst hálf níu. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.