Sparibollinn – bókaverðlaun fyrir fegurstu ástarjátninguna, verður afhentur í fyrsta skipti á Ástarmálsöguþingi Bókabæjanna í Tryggvaskála á Selfossi fimmtudagskvöldið 27. febrúar.
Bókabæirnir auglýstu eftir tillögum að bestu ástarlýsingunum í íslenskum bókmenntum ársins 2019. Fimm ástarlýsingar eru tilnefndar og það kemur í ljós á fimmtudagskvöldið hver hreppir Sparibollann.
Tilnefnd eru, í stafrófsröð, Andri Snær Magnason, Um tímann og vatnið, fyrir fallegustu ástarjátninguna til fjölskyldunnar. Dagur Hjartarson, Við erum ekki morðingjar, fyrir fallegustu lýsinguna á ást sem leiðir til harmleiks. Guðrún Eva Mínervudóttir, Aðferðir til að lifa af, fyrir fallegustu lýsinguna á hvunndagslegum ástum venjulegs fólks. Ragna Sigurdardottir, Vetrargulrætur, fyrir fallegustu ástarjátninguna til listarinnar og litapalletu veraldarinnar. Sölvi Björn Sigurðsson, Selta, fyrir fallegustu lýsinguna á ástinni sem stenst tímans tönn.
Fjölbreytt dagskrá á málþinginu
Á Ástarmálþinginu verður fjölmargt annað í boði, en það hefst í Tryggvaskála kl. 20:00.
Jón Özur Snorrason sýnir nokkrar ástarmyndir úr íslenskum bókmenntum en hann mun halda um stjórntaumana þetta kvöld ásamt Hörpu Rún Kristjánsdóttur. Eldri borgarar á Selfossi flytja Ferðalok Jónasar Hallgrímssonar, Rósa Vestfjörð Guðmundsdóttir segir frá Rauðu ástarsögunum, Hildur Ýr Ísberg ræður um ástarjátningar í unglingabókum og Leikfélag Selfoss býður upp á brot úr Djöflaeyjunni. Tónlistarkonan Myrra Rós mun flytja upphafs og lokatóna.
Að vanda er ókeypis inn meðan húsrúm leyfir, en gjarnan er þröngt á þingi á samkomum Bókabæjanna. Bókabæirnir bjóða kaffi og sæta mola, en barinn er opinn fyrir göróttari drykki.