Söngkeppni Fjölbrautaskóla Suðurlands verður haldin í íþróttahúsinu Iðu á Selfossi í kvöld, miðvikudaginn 1. nóvember. Eins og áður má búast við stórglæsilegri keppni með frábærri umgjörð.
„Eins og venjulega verður keppnin stórglæsileg, enda fáir skólar sem leggja jafn mikið í undankeppnina og við gerum,“ segir Haukur Már Birgisson, framkvæmdastjóri keppninnar, í samtali við sunnlenska.is.
Að þessu sinni er þemað Rocketman. Haukur gat ekki staðfest hvort Elton John myndi sjálfur mæta en ljóstraði því þó upp að hinn eini sanni Patr!k myndi skemmta gestum og einnig mun Elísabet Björgvinsdóttir, sigurvegarinn frá því í fyrra, stíga á stokk.
„Við hlökkum mikið til kvöldsins og það er spenningur í hópnum, bæði hjá keppendum og okkur sem höldum utan um keppnina. Við getum lofað flottu og skemmtilegu kvöldi hér í Iðu,“ segir Haukur ennfremur.
Húsið opnar kl. 19 og keppnin hefst kl. 20. Miðasala er við hurð og kostar miðinn 2.500 krónur. Það verður góðgæti í boði í sjoppunni á staðnum og skemmtunin hentar öllum aldurshópum.