Laugardagskvöldið 1. október verða píanótónleikar með Jóni Bjarnasyni, píanóleikara, í hinu sögufræga félagsheimili Aratungu sem þekktust er fyrir sveitaböll hér á árum áður.
Tilefni tónleikanna er fyrst og fremst endurbætur á Grotrian Steinweg flygli Aratungu sem keyptur var í húsið í kringum 1970. Hljóðfærið var keypt af Tónlistarfélagi Reykjavíkur og er það smíðað Árið 1959.
Kristinn Leifsson píanóstillari og Boaz Kirchenbaum önnuðust endurbæturnar og tókst einstaklega vel til. Hafa þeir náð að bjarga þessu einstaka hljóðfæri sem hljómar eins og nýtt.
Tónleikarnir hefjast kl. 20:30 og taka um eina og hálfa klukkustund með stuttu hléi. Tónleikagestum verður svo boðið upp á kaffi og konfekt í lok tónleikanna.
Á tónleikunum verður myndasýning með skýja- og náttúruljósmyndum, sem Jón hefur tekið, á tjaldi uppi á sviði meðan að leikin verður pínaótónlist eftir nokkra af helstu meisturum píanótónlistarsögunnar meðal annars Tunglskinsónata Beethovens.
Aðgangseyrir er 2.000 krónur en enginn posi er á staðnum.