Sunnudaginn 21. október kl. 15:00 mun listamaðurinn Birgir Snæbjörn Birgisson spjalla við gesti Listasafns Árnesinga um verk sitt „Von“
Verkið samanstendur af 64 máluðum portrettum af þeim alþingismönnum sem kosnir voru á þing vorið 2013.
Von kallast á við verk Halldórs Einarssonar af alþingismönnum lýðveldisársins 1944 sem hann skar í tré. Þessi tvö verk og mörg fleiri má sjá á sýningunni Halldór Einarsson í ljósi samtímans sem nú stendur í Listasafni Árnesinga. Auk þess að bjóða upp á samtal við Birgi mun Inga Jónsdóttir safnstjóri ganga um sýninguna, segja frá og svara spurningum gesta.
Með sýningunni er Listasafn Árnesinga að rýna í menningararfinn og lætur verk fjögurra núlifandi listamanna eiga í samtali við og varpa nýju ljósi á verk Halldórs á aldarafmæli fullveldis Íslands. Halldór Einarsson fæddist árið 1893 í Brandshúsum í Flóa. Hann lærði tréskurð og teikningu hjá Stefáni Eiríkssyni, en flutti árið 1922 til Vesturheims og starfaði lengst af við tréskurð í húsgagnaverksmiðju í Chicago. Meðfram þeirri vinnu skapaði hann mikinn fjölda verka í tré, stein og önnur efni. Eftir 45 ár ytra flutti Halldór aftur til Íslands og gaf Árnessýslu verk sín ásamt peningagjöf og var það önnur tveggja stofngjafa Listasafns Árnesinga, sem fagnar 55 ára afmæli þann 19. október n.k. Á sýningunni myndast óvæntar tengingar í ýmsar áttir, frá húsgögnum til bóka, handverki til náttúru, lækninga til stjórnmála, valdi til kvenna.
Birgir Snæbjörn Birgisson er fæddur árið 1966 og nam myndlist á Íslandi og í Frakklandi. Hann bjó líka um tíma í London þar sem hann starfaði við myndlist. Hann býr nú í Reykjavík en er virkur í sýningarhaldi víða um heim. Í verkum Birgis er að finna samfélagslega og pólitíska skírskotun og hann hefur lengi unnið með staðalímyndir út frá norrænu yfirbragði. Í verkinu Von er hann sjálfum sér trúr þegar hann málar alla alþingismennina ljóshærða og bláeygða, en það er hvers og eins að túlka hvað það þýðir. Á sunnudaginn gefst tækifæri til þess að ræða við Birgi, spyrja og ræða ólíkar túlkanir auk þess að fara í eins konar ratleik við það að greina þekkjanleg andlit í hópnum. Verkið er í eigu Listasafns Íslands.