Vetrarfrí grunnskólanna í Árnessýslu dreifast á dagana 23. febrúar – 24. mars og þá býður Listasafn Árnesinga börnum og fjölskyldum þeirra að heimsækja safnið og taka þátt í ýmsu sem þar er á dagskrá.
Listasmiðja með leiðbeinanda verður í boði sunnudaginn 24. febrúar kl. 14-16 þar sem viðfangefnið er mismunandi pappírsbrot og pappírsklipp þar sem unnið er bæði með tví- og þrívídd. Í barna- og fjölskyldukróknum er ætíð sjálfbær smiðja þar sem ýmis verkefni eru í boði sem tengjast sýningunum á einn eða annan hátt. Hægt er að fá aðstoð hjá starfsmönnum safnins eftir því sem aðstæður leyfa. Allt efni stendur þátttakendum til boða ókeypis.
Boðið er upp á laufléttan fjársjóðsleik í tengslum við sýningar safnsins sem eru Huglæg rými eftir Ólaf Svein Gíslason og frá 2. mars bætist við sýningin Einu sinni var … – þjóðsagnamyndir Ásgríms Jónssonar, sem býður börnum að upplifa ævintýri.
Fjársjóðsleikurinn felst í því að leysa einhvert verkefni í safninu og skrá þátttökuna á þar til gerðan þátttökumiða sem settur er í fjársjóðskistil. Við lok dags, sunnudaginn 24. mars verður síðan miði heppinn þátttakandi dreginn úr kistlinum og fær sá glaðing að launum.
Það er því hægt að skapa skemmtilega samverustund með börnunum við leik og listir í Listasafni Árnesinga í vetrarfríinu. Safnið er opið fimmtudaga til sunnudaga kl. 12-18 og allir velkomnir. Aðgangur að safninu og þeim fjársjóði sem þar er að finna er ókeypis sem og þátttaka í fjársjóðs-leiknum og sköpun í barna- og fjölskyldukróknum.
Verið velkomin að eiga saman gæðastundir í safninu.