Leikhópur Mímis, nemendafélags Menntaskólans að Laugarvatni, frumsýndi í gær leikritið Stellu í orlofi í félagsheimilinu Aratungu við frábærar undirtektir. Það var mikil spenna í leikhópnum fyrir því að færa sýninguna á svið, enda hefur verið lítið um viðburði í framhaldsskólum landsins síðustu mánuði.
Leikritið er byggt á samnefndri kvikmynd frá árinu 1986 og eins og við má búast er mikið fjör á sviðinu í Aratungu. Alls koma 40 nemendur að sýningunni, þar af 23 leikarar og leikstjórarnir eru einnig nemendur við skólann, þær Gísella Hannesdóttir og Arnheiður Diljá Benediktsdóttir.
Uppselt var á frumsýninguna en ennþá er hægt að fá miða á sýninguna í kvöld, föstudagskvöld og á báðar sýningarnar á laugardag, klukkan 14 og 20. Frést hefur að sjálf Edda Björgvinsdóttir, sem lék Stellu í bíómyndinni, ætli að mæta á fyrri sýninguna á laugardaginn.