Stór og smá einkasöfn á safnarasýningu

Safn matseðla og matreiðslubóka, bollastella og ítarlega flokkaðra penna er á meðal þess sem sjá má á safnarasýningu Upplits í dag.

Sýningin er haldin í félagsheimili Skeiðamanna í Brautarholti kl. 13-17.

Þar má einnig sjá svokallaða ruslaskúffu, en hún hefur að geyma lifandi og síbreytilegt samansafn nytsamra jafnt sem ónýtra hluta sem er án efa að finna á hverju heimili.

Safnararnir verða flestir á staðnum og sýna söfnin sín. Eflaust geta þeir sagt áhugasömum gestum sögur af tilurð safnanna, auk þess sem sýningin ætti að vera kærkomið tækifæri fyrir safnara til að hitta aðra safnara og skiptast á upplýsingum og skoðunum um söfnin.

Sýningin er framlag Upplits til Safnahelgar á Suðurlandi um helgina. Þetta er í annað sinn sem Upplit efnir til safnarasýningar, en sú fyrsta var haldin í félagsheimilinu á Flúðum á Safnahelgi í fyrra. Þá var fullt hús allan daginn og fjölmörg forvitnileg söfn sem glöddu augað.

Fyrri greinPólskur menningardagur í Tryggaskála
Næsta greinLoks opið í Lindinni allt árið