Að vanda er lesið úr jólabókum í Bókakaffinu á Selfossi öll fimmtudagskvöld fram til jóla. Fyrsti upplesturinn er 24. nóvember og verður húsið opnað klukkan 20 en lestur stendur frá 20:30 til 21:30.
Tíu ára hefð er nú komin á upplestarkvöldin í Bókakaffinu sem hafa verið vel sótt og skapað reglulega jólastemningu með heitum kakódrykk, smákökum og skemmtilegu skáldaspjalli.
Þeir sem lesa þetta fyrsta kvöld eru:
Steinunn Sigurðardóttir sem sendir frá sér bókina Heiða – fjalldalabóndinn sem skrifuð er í orðastað Heiðu Guðnýjar Ásgeirsdóttur á Ljótarstöðum í Skaftártungu.
Hermann Stefánsson sem skrifað hefur sérstæða bók um kvenhetjuna og fordæðuna Látra-Björgu en bókin nefnist Bjargræði.
Guðmundur Sæmundsson sem gefur út sína fyrstu ljóðabók sem nefnist Í sjöunda himni býr sólin.
Kristian Guttesen les úr nýútkominni ljóðabók sinni Hendur morðingjans.
Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.