Síðastliðinn sunnudag flutttu skólakórar Grunnskóla Þorlákshafnar ásamt hljómsveit söngleikinn Dýrin í Hálsaskógi á sviði Versala.
Mikið var lagt í uppsetninguna og stífar æfingar síðustu vikurnar. Börnin sýndu það að þau eru fullfær um að takast á hendur svo viðamikið verkerkefni og gerðu því góð skil. Mikinn texta þurfti að læra utanað, bæði það sem þurfti að segja og allar vísurnar sem eru sungnar.
Ester Hjartardóttir lagaði handritið að þessum hópi þannig að fjölmargir fengu eitthvað að segja, á móti var ýmislegt látið liggja milli hluta og þegar upp var staðið rann söngleikurinn vel áfram og tók bara um eina klukkustund í flutningi.
Ása Berglind Hjálmarsdóttir og Gestur Áskelsson æfðu kórana og hljómsveitina, Halldór Sigurðsson var leikstjóri og hvíslari, Sigrún Berglind Ragnarsdóttir sá um leikmynd og búninga og Ágústa Ragnarsdóttir málaði leikarana áður en þeir stigu á svið.
Þarna voru flest dýr skógarins og veiðimennirnir. Dýrin mynduðu með sér bandalag í lokin eins og vel er þekkt og enduðu leikverkið með því að syngja grænmetissönginn.