Stórvirki um sunnlenska atvinnu- og verslunarsögu

Út er komið ritverkið Samvinna á Suðurlandi eftir Guðjón Friðriksson sagnfræðing. Um er að ræða fjögur bindi, samtals 1.450 blaðsíður, þar sem saga samvinnufélaga á Suðurlandi í um hundrað ár er rakin.

Útgefandi er Bókaútgáfan Sæmundur á Selfossi og bakhjarl útgáfunnar er Kaupfélag Árnesinga. Bækurnar eru ríkulega myndskreyttar og litprentaðar. Verkið er selt í fallegri áprentaðri öskju.

Sunnlenskir bændur hófu fyrst að bindast samtökum um verslunarmál undir lok 19. aldar þegar færi gafst til að brjótast undan valdi gömlu kaupmannsverslananna. Framan af var róðurinn oft þungur fyrir þessa félagshreyfingu, bæði vegna misjafns árferðis og ekki síður af völdum erfiðra samgangna og hafnleysis. Þrátt fyrir áföll og erfiðleika í fyrstu, óx kaupfélögunum smám saman fiskur um hrygg og þegar komið var fram á miðja síðustu öld voru samvinnufélög orðin allsráðandi í verslun, afurðasölu og iðnaði á Suðurlandi. Þjóðfélagsbreytingar undir lok aldarinnar urðu kaupfélögunum þó þungar í skauti og þau týndu smám saman tölunni uns Kaupfélag Árnesinga, síðasta stórveldið á Suðurlandi, hætti starfsemi upp úr aldamótum.

Í þessu viðamikla riti rekur Guðjón Friðriksson ítarlega sögu kaupfélaga og annarra samvinnufyrirtækja í Árnessýslu, Rangárvallasýslu, Vestur-Skaftafellssýslu og Vestmannaeyjum. Þetta er saga samstöðu og sigra, litríkra leiðtoga og stórhuga framkvæmda en einnig saga togstreitu, hatrammrar stjórnmálabaráttu, mistaka og beiskra ósigra.

Guðjón Friðriksson sagnfræðingur er löngu þjóðkunnur fyrir vönduð og lifandi sagnfræðirit auk rómaðra ævisagna stjórnmálaskörunga og athafnamanna á borð við Hannes Hafstein, Einar Benediktsson og Jónas Jónsson frá Hriflu.

Guðjón Friðriksson. Ljósmynd/Aðsend

Sauðasala, rjómabú og fyrstu samvinnufélögin
Í fyrsta bindi Samvinnu á Suðurlandi segir frá fyrstu tilraunum sunnlenskra bænda til að stofna til samtaka um verslunarmál en óbrúuð vatnsföll, vega- og hafnleysi gerðu Sunnlendingum erfitt fyrir um bæði aðdrætti og afurðasölu. Í fyrstu voru þetta óformleg pöntunarfélög sem flest urðu til í tengslum við sauðasölu til Bretlands en smám saman urðu til regluleg samvinnukaupfélög að enskri og danskri fyrirmynd. Hér segir frá Kaupfélagi Árnesinga hinu eldra, Gestsfélaginu, Stokkseyrarfélaginu og kaupfélögunum Heklu og Ingólfi en flest höfðu þau bækistöðvar á Eyrarbakka og Stokkseyri.

Þá er rakin ítarlega saga rjómabúanna á Suðurlandi á fyrstu áratugum 20. aldar en þau áttu drjúgan þátt í þeirri samgöngubyltingu sem varð á Suðurlandi í byrjun aldarinnar, auk þess að opna bændum nýja leið til útflutnings.

Loks er greint frá stofnun og uppgangi Sláturfélags Suðurlands sem náði að losa sunnlenska bændur undan valdi kaupmanna í Reykjavík og flytja búfjárslátrun heim í hérað.

Flokkspólitísk félög í Eyjum, allsráðandi kaupfélag í V-Skaft.
Í öðru bindi Samvinnu á Suðurlandi er sagt frá kaupfélögum í Vestur-Skaftafellssýslu, einkum Kaupfélagi Skaftfellinga sem varð þeirra langlífast og varð um skeið nánast allsráðandi í atvinnurekstri í sýslunni.

Fjallað er um kaupfélögin í Vestmannaeyjum en þau höfðu nokkra sérstöðu framan af því ólíkt félögunum á fastalandinu snerust þau fyrst og fremst um fisksölu og útgerð. Kaupfélagaflóran í Eyjum varð síðar fjölbreyttari en víða annars staðar og þar kom pólitík mjög við sögu.

Þá er greint frá áveituframkvæmdunum miklu á Skeiðum og í Flóa á öðrum og þriðja áratug 20. aldar, sem áttu þátt í að ryðja brautina fyrir stofnun mjólkurbúa. Rakin eru átök um mjólkursölumál og mjólkurflutninga og greint frá útþenslu Mjólkurbús Flóamanna og hinu skammlífa Mjólkurbúi Ölfusinga sem þó markaði upphaf þéttbýlis í Hveragerði.

Loks er sagt frá litlu en stórhuga kaupfélagi í Grímsnesi sem náði, þrátt fyrir endasleppan rekstur, að gerast brautryðjandi í vöruflutningum.

Jarlinn af Sigtúnum og stórveldið KÁ
Í þriðja bindi Samvinnu á Suðurlandi er rakin saga Kaupfélags Árnesinga. Stofnfundur þess árið 1930 var fámennur og vakti litla athygli, enda ríkti um þær mundir ekki mikil bjartsýni um framgang samvinnuverslunar í sýslunni. En meðal stofnendanna var ungur kaupmaður, Egill Thorarensen í Sigtúnum við Ölfusárbrú, sem tók að sér að stýra nýja kaupfélaginu. Undir stjórn Egils, „jarlsins af Sigtúnum“ varð KÁ að sannkölluðu stórveldi í verslun, þjónustu og iðnaði í Árnessýslu. Kaupfélagið hafði margvísleg umsvif á Selfossi, í Þorlákshöfn og víðar og varð ásamt Mjólkurbúi Flóamanna sá miðpunktur sem landbúnaður í sýslunni hverfðist um. Er líða tók á öldina varð rekstur kaupfélaga æ þyngri og svo fór að lokum að KÁ tók yfir öll önnur kaupfélög á Suðurlandi. Undir aldarlok hvarf það síðan alveg frá verslunarrekstri og hugðist hasla sér völl í ferðaþjónustu en það reyndist ekki ferð til fjár.

Tvískipting Rangárþings og sjálfstæðiskaupfélagið Höfn á Selfossi
Meginefni fjórða bindis Samvinnu á Suðurlandi er saga kaupfélaganna í Rangárvallasýslu. Framan af voru þau tvö, Kaupfélag Hallgeirseyjar í Landeyjum og Kaupfélag Rangæinga á Rauðalæk í Holtum. Í þeim báðum voru framsóknarmenn í fararbroddi en pólitíkin í Rangárvallasýslu gat verið hatrömm og árið 1935 var þriðja félagið stofnað, Kaupfélagið Þór undir forystu sjálfstæðismannsins Ingólfs Jónssonar, síðar ráðherra. Eftir talsverð átök og innbyrðis togstreitu voru framsóknarkaupfélögin tvö sameinuð og hið nýja Kaupfélag Rangæinga gerðist brátt umsvifamikið á Hvolsvelli en Kaupfélagið Þór lét til sín taka á Hellu. Félögin tvö lögður grunn að þéttbýli á báðum þessum stöðum og skiptu á milli sín viðskiptavinum í sýslunni eftir pólitískum línum.

Hér er einnig sagt frá Kaupfélaginu Höfn, öðru sjálfstæðiskaupfélagi sem keppti við Kaupfélag Árnesinga á Selfossi.

Fyrri greinJón Guðni til Brann
Næsta greinSkógasafni færður garðbekkur úr reynivið frá Múlakoti