Rótgrónir Selfyssingar eiga flestir góðar minningar um gamla bæinn þegar allir þekktu alla og enginn læsti húsinu sínu. Nú hafa bræðurnir á Víðivöllum, þeir Ingó og Gummi Tóta, samið lag sem segja má að sé óður til æskunnar og hvernig það var að alast upp á Selfossi á tíunda áratug síðustu aldar.
Lagið ber einfaldlega heitið Víðivellir og er samið í sameiningu af þeim bræðrum.
„Sumir semja lagið fyrst og svo textann. Aðrir semja ljóð og semja svo lag við ljóðið. Ég hef alltaf verið þannig að ég tek upp gítarinn og byrja bara eitthvað að spila og svo verður eitthvað til. Núna langaði mig að prófa að skrifa fyrst niður línurnar og semja svo lagið,“ segir Ingólfur í samtali við sunnlenska.is.
„Mig hefur alltaf langað til að gera lag sem minnir mann á æskuna. Ég skrifaði bara svona viðlagslínur, skin og skúrir, skiptast á hjá öllum, hjálpumst á fætur ef við föllum, strákarnir á Víðivöllum. Ég sendi línurnar svo í gamni á Gumma. Mér finnst hann svo sniðugur og með flottar melódíur. Hann er mjög góður í að búa til grípandi lög og mér finnst hann vera á einhverju Ed Sheeran leveli, allt svo grípandi og fallegt sem hann gerir.“
Lagið varð til á mínútu
Eftir að hafa sent þessar línur á Gumma vonaðist Ingó til þess að bróðir hans myndi koma með eitthvað geggjað lag við textabrotið. „Eina sem hann skrifaði var: Þetta er lag.“
„Ég man að ég var í flugvél á leiðinni frá giggi á Akureyri þegar ég skrifaði línurnar. Svo settist ég bara við tölvuna og samdi lagið á svona mínútu. Þetta var bara þannig. Lagið og textinn kom bara strax. Ég held að það hafi verið svo gaman hjá öllum þegar þeir voru sjö ára. Þetta var svo mikið frelsi að mörgu leyti. Lífið var svo gott. Þetta var það sem ég var að hugsa þegar ég skrifaði textann og Gummi kom svo með sínar línur á móti.“
„Hugmyndin var fyrst að skrifa lag sem var svolítið til hans, strákarnir á Víðivöllum. Svo þegar Gummi gerði sínar línur þá kom svona contrast í þetta. Mér fannst að það væri gaman að gera dúett þar sem við syngjum línurnar til skiptis, það er frekar sjaldgæft. En ég hugsaði að við værum að kallast á í laginu.“
Mamma táraðist
Bræðurnir hittust svo um jólin og kláruðu lagið saman. „Við púsluðum því saman, hentum einhverju út en héldum því sem okkur fannst vera fallegustu línurnar hjá hvor öðrum. Svo prófuðum við að spila þetta heima og mamma náttúrulega táraðist.“
„Við spiluðum svo lagið á tónleikunum okkar á Selfossi og í Eyjum fyrir jól. Og af því að við fengum svo góð viðbrögð þá ákváðum við að taka lagið upp í stúdíói og gefa það út.“
Ingó segir að hann hafi deilt lagabúti á Facebook í aðdraganda tónleikanna og viðbrögðin hafi ekki staðið á sér. „Ég er náttúrulega búinn að vera svo ótrúlega lengi að syngja að maður þekkir orðið alla í tónlistarbransanum. Ég man að Björgvin Halldórsson kommentaði á lagið „mjög gott strákar“, Stebbi Hilmars gerði læk og Magnús Þór Sigmundsson skrifaði „flott flutt og gott lag“. Gummi sendi skjáskot af þessum kommentum á mig og sagðist vera hættur að gefa út meiri tónlist og toppnum væri náð. Hann var svo rosa glaður að fá þetta pepp,“ segir Ingó og hlær.
Kláruðu lagið á mettíma
Gummi er atvinnumaður í fótbolta en hann hélt til Armeníu síðastliðið sumar þar sem hann spilar með liðinu Noah. Hann var í stuttu fríi á Íslandi um jólin og höfðu þeir bræður því knappann tíma til að klára lagið.
„Þetta gerðist mjög hratt og við þurftum að hafa það þannig því að Gummi var að fara aftur út í fótboltann. Við fórum í stúdíóið til Fannars [Freys Magnússonar] og svo vorum við búnir að slott á Bylgjunni og FM til að kynna lagið. Við þurftum að klára þetta á þremur dögum þannig að við vorum bara fram á nótt að vinna lagið og svo var þetta bara komið út.“
Eru eins og yin og yang
Sunnlenska.is hafði samband við Gumma þar sem hann var staddur í Armeníu og spurði hann út í samstarfið með stóra bróður.
„Það er mjög gaman að vinna með Ingó. Hann er ákveðið náttúrutalent þegar kemur að því að semja grípandi melódíur og texta. Við erum fínt yin og yang að mörgu leyti og held að við séum það líka í tónlistinni. Svo er mjög gaman að geta búið til góðar minningar og stemningu sem tengjast svona tónleikum.“
Ingó tekur undir orð Gumma og segir að þeir séu ólíkir bræður með ólíka persónuleika en vinna þrátt fyrir það mjög vel saman. „Við erum mjög góðir vinir en við erum eins og svart og hvítt hvernig við semjum og hugsum.“
Búnir að fá mikið af persónulegum skilaboðum
Ingó segir að Víðivellir sé öðruvísi lag en önnur sem hann hefur samið.
„Það hljómar kannski ekki beint eins og einhver hittari. En það sem er gaman er ég hef fengið mjög mikið af persónulegum skilaboðum til okkar þar sem fólk er að tengja við lagið. Hvort sem lagið muni fljúga hátt eða ekki þá er það allavega búið að ná inn í hjartað á einhverjum. Mér finnst skemmtilegt ef einhver nær að tengja vel við þetta.“
Ingó vonast til að þeir bræður semji meira saman. „Þegar Gummi er búinn með fótboltaferilinn langar hann að fara miklu meira í tónlist. Honum finnist algjör draumur að vera í þessu. Mér finnst alveg gaman og forréttindi að geta unnið við þetta en mér finnst ekki síður gaman að vera aðeins til hliðar eða í bakgrunninum því að ég er búinn að vera mikið í frontinum. Þannig að ég hugsa að við leikum okkur áfram saman að gera tónlist og Gummi getur verið í frontinum.“
Fylgir frekar hjartanu
Sjálfur á Ingó mikið af lögum sem hann segist þurfa að gefa út. En það er þó einn hængur á. „Mér persónulega finnst ekkert mjög gaman í hljóðveri. Mér finnst það ekki skemmtileg vinna. Mér finnst miklu skemmtilegra að gigga og semja og allt svoleiðis.“
„En svo þegar maður er búinn að vera svona lengi að þá ertu einhvern veginn búinn að prófa allt. Eftir kannski fimm ár þá ertu búinn að spila á öllum stöðum og öllum samkomum og búinn að fara í öll viðtöl á öllum stöðvum. Það er svo lítið sem þú átt eftir að prófa.“
„Þannig að maður vill kannski frekar fylgja hjartanu, ef maður getur leyft sér það. Ef það koma góð lög sem maður virkilega vill gefa út, eins og mig langaði mjög mikið með þetta lag. Þá getur maður meira valið úr því sem maður er að gera, heldur en að vera í fjöldaframleiðslu.“
Veiðihúsin skemmtilegustu giggin
Aðspurður út í uppáhaldsstaði til að spila á segir Ingó að það séu ekki hinir hefðbundnu skemmtistaðir. „Það er mjög skrítið eins og það hefur þróast, þá er skemmtilegustu giggin sem ég fæ í veiðihúsum. Ég er mjög mikið fenginn í þannig gigg. Þetta eru draumagiggin.“
„Þetta eru kannski tíu kallar eða fimm hjón, svona lítill hópur, rosa náinn hópur og maður eignast nánast vini í hverri ferð. Ég sest bara niður með gítar, er kannski bókaður í klukkutíma og sit svo í tvo, þrjá tíma því að það er svo gaman.“
„Um daginn spilaði ég fyrir sjötíu Þjóðverja. Þeir voru rosa ánægðir. Ég er bara eins og óskrifað blað þegar ég mæti, það er svo geggjað. Fyrir Þjóðverja þá er ég bara einhver lúði með gítar, þá þarf ég svolítið að sanna mig að ég geti eitthvað. Ég er þá bara að spila á ensku en oft er ég spurður hvort ég hafi samið eitthvað sjálfur og þá spila ég eitthvað eftir mig og þeir segja this was great. Þetta er svo mikill örmarkaður sem við erum á þannig að þegar maður prófar svona gigg þá er það rosalega gaman.“
„Víðivellir er komið á Spotify. Ég hvet alla í þessum hluta bæjarins til að hlusta. Taka rölt um Víðivellina, þetta er svolítið falleg gata, gamalgróin,“ segir Ingó að lokum.