Strengjatónleikum flýtt vegna óveðursspár

Frá lokatónleikum Strengjamótsins á Akureyri 2018 í Menningarsalnum Hofi. Ljósmynd/Tónlistarskólinn á Egilsstöðum

Dagskrá strengjamótsins sem haldið er á Selfossi nú um helgina hefur verið flýtt vegna óveðursins sem spáð er á morgun, sunnudag.

Lokatónleikar strengjamótsins verða haldnir í íþróttahúsinu Iðu klukkan 18:30 í kvöld. Að þeim loknum munu væntanlega gestir að norðan bruna heim, en ekkert ferðaveður verður á sunnudag ef spáin gengur eftir.

Á strengjamótinu stilla 250 strokhljóðfæranemendur af öllu landinu saman strengi sína. Mótinu hafði verið frestað um tvö ár vegna samkomutakmarkana en nemendurnir, sem eru á aldrinum 7-17 ára, komu á Selfoss í gær og hafa æft af kappi fyrir stórtónleikana í kvöld. Þar munu fjórar stórar hljómsveitir spila undir stjórn fjögurra stjórnenda, en það eru Örnólfur Kristjánsson, Kristján Matthíasson, María Weiss og Guðmundur Óli Gunnarsson.

Fyrri greinFyrsti sigur Hrunamanna – Hamar tapaði naumlega
Næsta greinHandtekinn með fjölda vopna eftir að hestur var skotinn með ör