Það verður nóg um að vera í Rangárþingi eystra um verslunarmannahelgina þar sem dagskrá verður á Hellishólum, boðið uppá karnival á Hvolsvelli, Kotmót í Kirkjulækjarkoti og Flugmót í Múlakoti.
Á Hellishólum verður lifandi tónlist og stuðball bæði föstudags- og laugardagskvöld, brenna og brekkusöngur á laugardagskvöld og golfmót á sunnudaginn, svo fátt eitt sé nefnt.
Í Múlakoti verður nóg í boði fyrir alla aldurshópa, leikir fyrir krakkana, hoppukastali og ærslabelgur, lendingakeppni, brenna og sjálfskipaðir trúbadorar munu halda uppi fjöri á tjaldsvæðinu.
Kotmótið í Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð er kristilegt fjölskyldumót sem haldið er af Hvítasunnukirkjunni á Íslandi. Mótið er bindindismót, sem hefur verið haldið árlega síðan 1949. Þar verður vönduð dagskrá og eitthvað fyrir alla fjölskylduna.
Á laugardaginn milli klukkan 14 og 16 verður síðan karnival á miðbæjartúninu á Hvolsvelli þar sem finna má ýmsa afþreyingu fyrir alla fjölskylduna.