Stuðlabandið endurtekur leikinn á nýársnótt

Stuðlabandið.

Eftir frábærlega vel heppnaða útsendingu á annan í jólum ætlar Stuðlabandið að endurtaka leikinn og bjóða í rafrænt áramótapartý á nýársnótt.

„Þetta var fyrst og fremst ótrúlega langþráð stund fyrir okkur, að koma svona saman og spila fyrir fólk, þótt þetta hafi vissulega verið með allt öðru sniði en vanalega,“ sagði Marinó Geir Lilliendahl, trommari Stuðlabandsins í samtali við sunnlenska.is.

Þrátt fyrir litla spilamennsku á árinu var ekki ryðblett að sjá á bandinu sem hlóð í stórskemmtilegt prógram og fjöldi fólks fylgdist með útsendingunni og skemmti sér heima í stofu.

„Já, viðbrögðin vour gríðarlega góð og gaman að sjá stemninguna sem myndast í kringum svona viðburð á netinu. Þannig að eftir stöðufund að lokinni útsendingu á annan í jólum ákváðum við að endurtaka leikinn á nýársnótt og teljum í á slaginu 00:45 og leikum af fingrum fram eitthvað út í nóttina,“ bætti Marinó við.

Eins og sú fyrri, verður útsendingin frá Flugsafni Einars Elíassonar á Selfossflugvelli. Aðdáendur Stuðlabandsins eru eflaust komnir með kampavínið í kæli og tilbúnir með hattana og innisprengjurnar.

Útsendingin hefst kl. 00:30 svo allir geti pottþétt komið þessu á sjónvarpið í tæka tíð og hún verður einnig aðgengileg á YouTube reikningi hljómsveitarinnar hér fyrir neðan.

https://youtu.be/Q9Pwu0v4YzY

Fyrri greinTveir bílar fóru niður um ís á Eyfirðingavegi
Næsta greinDoddi og Weekendson með fyrsta lag ársins 2021