Leikfélag Selfoss frumsýnir í kvöld leikritið„Uppspuna frá rótum“ í leikhúsinu við Sigtún. Fimmtán leikarar taka þátt í sýningunni.
Verkið er eftir þá Ármann Guðmundsson, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason en þeir hafa samið fjölda leikrita saman og í sitthvoru lagi. Auk þess eru þeir allir meðlimir í hinni stórskemmtilegu hljómsveit Ljótu hálfvitunum.
Leikstjóri sýningarinnar er Þórey Sigþórsdóttir og hún segir verkið vera fjölskyldusögu sem hljóti að vera byggð á mörgum sannsögulegum atburðum.
„Við förum frá árinu 2000 og smám saman aftur í tímann með stórfjölskyldu sem býr í gömlu húsi. Við komumst að því hvað er á bakvið fjölskyldusöguna sem hefur farið mann fram af manni og hugsanlega breyst manna á millum. Það er líka gaman að skoða hvernig sagan hefði getað breyst ef menn hefðu sagt já eða nei hér eða þar. Ég held að margir geti séð sig, eða frænda sinn og frænku, í þessari sögu,“ segir Þórey leikstjóri í samtali við sunnlenska.is.
„Þetta er hress og skemmtileg sýning en það er líka mjög tragísk taug í henni. Stundum hlær maður með tárin í augunum. Mér finnst gaman að reyna að fanga það.“
Í leikhópnum er blanda af reyndum kempum sem og rísandi stjörnur framtíðarinnar. Auk þess er fjöldi fólks sem vinnur hin fjölmörgu en gríðarlega mikilvægu handtök baksviðs. Þórey segir að æfingaferlið hafi gengið vel en hópurinn hittist fyrst í lok nóvember.
„Ég er ánægð með leikhópinn en ég er líka er rosalega ánægð með þetta leikfélag í heild sinni. Hérna er mjög hæfileikaríkt og skapandi fólk, bæði innan sviðs og utan og leikararnir vinna rosalega vel. Þau hafa verið mjög móttækileg fyrir því að prófa nýja hluti og taka áhættu. Baksviðsfólkið hefur verið duglegt við að vinna sjálfstætt og mér finnst mjög gaman að vinna með öllu þessu fólki. Við hlökkum til að bjóða áhorfendum uppá nýja metnaðarfulla sýningu úr íslenskum veruleika og vonum að áhorfendur fari heim, hrærðir með bros á vör og með eitthvað til að hugsa um inn í framtíðina,“ sagði Þórey að lokum.
Uppspuni frá rótum var fyrst sýnt á heimavelli þremenningana á Húsavík árið 2000 en er nú sett upp í annað sinn. Fjöldi skemmtilegra sönglaga er í sýningunni sem öll voru samin sérstaklega fyrir upprunalegu uppsetninguna en hafa verið endurútsett að hluta og aðlöguð leikhópnum á Selfossi.