Sænsk/íslenska hljómsveitin Sandström-Gunnarsson Duo gleðja landsmenn þessa dagana með norrænum jazz og þjóðlagatónum.
Dúettinn er skipaður sænska gítarleikaranum Viktor Sandström og íslenska kontrabassaleikaranum Leifi Gunnarssyni frá Selfossi
Upphafið af samstarfi dúetsins kom til þegar Viktor og Leifur hófu nám við Rythmiska konservatoríið í Kaupmannahöfn. Í Kaupmannahöfn blómstrar jazzlífið og margir ungir hljóðfæraleikarar sækja þangað um þessar mundir, sérstaklega af norðurlöndunum.
Tónlist dúettsins er í grunninn jazz en á efnisskrá dúetsins eru bæði hefðbundinir jazz standardar og sænsk- og íslensk þjóðlög sem þeir félagar hafa útsett í sameiningu.
,,Hugmyndin bakvið þjóðlögin er að gera þau jazzvænlega svona álíka og Jan Johanson gerði hér áður, en auðvitað á okkar persónulega máta. Mér hefur þótt sérstaklega ánægjulegt að kynnast íslenskri tónlist á þennan hátt og hlakka mikið til að fá að flytja hana fyrir Íslendinga,” segir Viktor.
Ferð dúettsins er styrkt af sænsk-íslenska samstarfssjóðnum. Markmið sjóðsins er að styrkja tvíhliða samstarf Svíþjóðar og íslands, fyrst og fremst á sviði menningar, menntunar og rannsókna. ,,Það er okkur mjög mikils virði að hafa fengið samstarfssjóðinn sem bakhjarl, og í sjálfu sér eru það þeir sem yfir höfuð gera ferðina mögulega,” segir Leifur.
Þeir félagar koma fram á tvennum tónleikum á Suðurlandi, á föstudagskvöld kl. 20 í Sögusetrinu á Hvolsvelli og á laugardag kl. 14 í Gallerí Gónhól á Eyrarbakka.