Fyrstu helgina í september mun Brimrót á Stokkseyri halda uppskeruhátíð í hjarta Stokkseyrar.
„Alveg frá því Brimrót varð til hérna efri hæðinni á Gimli í lok árs 2019, höfum við haft mikinn áhuga á því að halda einhverskonar uppskeruhátíð. Vinna með það hvað Suðurlandið er mikil matarkista, mikil matvælaframleiðsla í fjórðungnum og hvað íbúar hérna í nágrenninu eru að rækta mikið sjálf; kartöflur og fleira grænmeti,“ segir Pétur Már Guðmundsson, hjá Brimrót, í samtali við sunnlenska.is.
„Við vorum ekki alveg viss um hvernig formið á hátíðinni ætti að vera, hvort þetta ætti að vera afgreitt svona bara úr skottinu á bílum eða hvað. En svo skall Covid náttúrulega á í fyrra, svo að þessi hugmynd var geymd á meðan. Svo þegar virtist vera að birta til í vor og snemmsumars á þessu ári þá ákváðum við að vinna þetta meira og búa til ögn veglegri dagskrá. Svo hefur önnur bylgja skollið á síðan en við ætlum að halda okkar striki, en vera ábyrg og hafa nóg af spritt brúsum og passa að gestir hafi nóg pláss.“
„Við erum að vinna hátíðina í samvinnu við Sveitarfélagið Árborg og þaðan fáum við lánuð smáhýsi sem verða staðsett í miðju þorpsins, nálægt Skálanum hérna á Stokkseyri. Þar verða flestar vörur framleiðenda kynntar og til sölu.“
„Dagskráin fer líka fram inn á Brimrót, í gallerí Gimli á neðri hæðinni á samnefndu félagsheimili, Gallerí Svartakletti og Gallerí-Stokk. Aðrir aðilar á Stokkseyri taka þátt í þessu með einum eða öðrum hætti eins og Skálinn og Fjöruborðið,“ segir Pétur.
Stefna á árvissan viðburð
Þetta er í fyrsta sinn sem uppskeruhátíð Brimróts er haldin. „Eins og ég segi, þá er Brimrót ennþá á barnsskónum en við höfum haft þessa hugmynd bakvið eyrað um hríð. Við viljum hins vegar endilega halda hátíðina aftur að ári og gera Haustgildi að árlegum viðburði. Það er full ástæða til að vinna meira með alla þessa framleiðslu hérna í nágrenninu, bæði matvælaframleiðslu og framleiðslu á menningarefni.“
„Við munum nýta okkur þessa reynslu sem við öðlumst núna og vonandi verða takmarkanir vegna Covid á bak og burt að ári liðnu og þá gætum við bætt við þátttakendum og haft betri aðstöðu fyrir framleiðendur og þátttakendur,“ segir Pétur.
Matur og listaverk
Að sögn Péturs mun kenna ýmissa grasa á hátíðinni. „Margt og mikið í sem fæstum orðum. Kjöt, kukl, vegan súkkulaði, pylsur, bjór og listaverk. Sjálfsagt á ég eftir að fá samviskubit fyrir að gleyma einhverju en bendi á fésbókarsíðu Brimróts, þar sem er að finna meiri upplýsingar um það sem í boði verður.“
Pétur segir að uppskeruhátíðin sé fyrir alla. „Matar- og menningaráhugafólk er það ekki nokkuð góður markhópur. Dagskráin stendur frá klukkan 13 til 18 báða dagana. Við vildum ekki vera að hafa dagskrá fram á kvöld, það er eitthvað sem við gætum bætt við þegar áhrifa Covid gætir ekki eins mikið. Við miðum dagskrána við fólk á öllum aldri. Það verður myndahorn fyrir krakka að lita á Brimrót. Við sjálf sem stöndum að hátíðinni munum passa upp á fjöldatakmarkanir og hreinlæti og biðlum til gesta að gera slíkt hið sama.“
Nauðsynlegt að halda í félagslíf
„Svona samkomur á þessum tímum geta verið flóknar í framkvæmd. Það er þó gott að hafa þær. Við getum ekki alveg lokað okkur af og það er nauðsynlegt að halda í það félagslíf sem við leyft okkur. Það er gott að geta boðið upp á svona litlar skemmtilegar samkomur. Haustgildi er vonandi komið til að vera og þá skiptir máli að vel takist til svona fyrsta kastið. Við sem stöndum að viðburðinum erum meðvituð um það og vonum að gestir sem koma muni njóti heimsóknarinnar af ábyrgð og komi svo aftur að ári,“ segir Pétur að lokum.