Suðurlandsjazzinn í sumar hefur slegið í gegn og hann mun halda áfram um næstu helgi við Tryggvaskála á Selfossi og Skyrgerðina í Hveragerði, kl. 15:00 á laugardag og sunnudag.
Á laugardaginn næstkomandi þann 21. ágúst verður það Dagný Halla Björnsdóttir sem treður upp í Tryggvaskála ásamt þeim Vigni Þór og Sigurgeiri Skafta.
Í Skyrgerðinni sunnudaginn 22. ágúst verður það Stefanía Svavarsdóttir sem kemur fram ásamt téðum Vigni & Sigurgeiri Skafta en þetta tríó sló rækilega í gegn um síðastliðna helgi við Tryggvaskála.
Það er Menningarfélag Suðurlands sem stendur að Suðurlandsjazzinum en frítt er á alla viðburði tónleikaraðarinnar og er viðburðinn styrktur af SASS.