Ingunn Jónsdóttir í Hallanda í Flóahreppi svaraði nokkrum jólaspurningum fyrir sunnlenska.is.
Hvort ertu meiri skröggur eða jólaálfur? Ætli ég sé ekki pínu bæði – mögulega skröggur þegar kemur að skreytingum þar sem mér finnst duga að hafa eitt stórt jólatré og svo slatta af seríum og kertum – dóttur minni til mikils ama þar sem hún er óttaleg skreytiskjóða. En svo er ég aaaalgjör jólaálfur þegar kemur að allskonar hefðum og viðburðum tengdum aðventu og jólum. Frægt er orðið hið árlega samverudagatal Hallandafjölskyldunnar sem hefur þó færst úr því að vera með daglegum viðburðum yfir í vikulega – enda erfitt að gera eitthvað saman á hverjum degi þegar börnin eru eiginlega flogin úr hreiðrinu.
Uppáhalds jólasveinn? Þegar kemur að jólasveinum þá var Stúfur alltaf minn gaur þar sem hann var kannski minnst ógnvekjandi, en mér þóttu samt alltaf áhugaverðust þau sem urðu eftir heima – þe þau systkin sem ekki fengu hlutverk sem jólasveinar og urðu að sætta sig við að vera kölluð Leppur eða Leiðindaskjóða…
Uppáhalds jólalag? Sigurður Guðmundsson og Sigríður Thorlacius gáfu út plötuna „Það eru jól“ árið 2020 sem er algjörlega dásamleg – og svo er ég viss um að nýja jólaplatan með GDRN og Magnúsi Jóhanni „Nokkur jólaleg lög“ verður í uppáhaldi þegar ég eignast hana.
Uppáhalds jólamynd? Ef við erum að tala um svona „jóla-jóla“ mynd þá er gamla Chevy Chase myndin „Christmash Vacation“ eitthvað sem ég get alltaf hlegið af. En annars höfum við oftar en ekki horft á allar Harry Potter myndirnar og/eða Hringadrottinssögu yfir hátíðarnar, þó það séu ekki beint jólamyndir þá tengjast þær aðventunni.
Uppáhalds jólaminning? Kannski ekki uppáhalds minningin en með þeim sterkari er þegar litla 5 ára Ingunn fékk óskaplega fallegt jóladagatal sem mamma saumaði. Þetta var svona vegghengt dagatal þar sem hver dagur átti sinn vasa og í hverjum vasa var sælgæti. Þar sem ég stóð og horfði á dagatalið á veggnum læddist sú hugsun að mér að það væri nú allt í lagi þó ég borðaði úr einum vasa í viðbót, það myndi enginn taka eftir því… 7 mínútum seinna hafði Ingunn litla klárað dagatalið og enn var bara 3. desember…
Uppáhalds jólaskraut? Hann pabbi minn er mikill hagleiks maður og í fyrra fór hann að smíða alveg dásamleg hreindýr í öllum stærðum, úr afgangs trjábolum. Þau eru mikið uppáhalds.
Minnistæðasta jólagjöfin? Hef svo sannarlega fengið mikið af góðum gjöfum um ævina en mögulega er ein af þeim minnistæðari var þegar maðurinn minn gaf mér gönguskíði. Þetta kom mér svo mikið (og skemmtilega) á óvart því venjulega er ég búin að strá einhverjum fræjum (vægt til orða tekið) þegar kemur að gjöfum en hafði ekkert minnst á gönguskíði. En þetta var svo dásamlega akkúrat það sem ég vissi ekki að mig langaði í – og ég hef notað þau óspart síðan (og jafnframt gefið honum sitt eigið par til þess að geta verið mér samferða).
Hvað finnst þér ómissandi að gera fyrir hver jól? Frá því að við fórum að halda upp á okkar eigin jól höfum við næstum undantekningalaust farið og sagað niður okkar eigið jólatré. Oftast hefur Haukadalsskógur orðið fyrir valinu en einnig Snæfoksstaðir. Venjulega fer heill dagur í þetta með tilheyrandi nesitsstoppi og heitu súkkulaði.
Hvað er í jólamatinn? Annað sem við hjónin höfum gert síðan við fórum að halda saman jól er að elda kalkún í jólamatinn. Maggi sér um fuglinn, fyllinguna og sósuna á meðan ég sé um allt annað!
Ef þú ættir eina jólaósk? Eins klisjulega og það hljómar þá óska ég þess sama og aðstandendur Coca cola – þe frið á jörð.