Að venju býður Bókasafnið í Hveragerði upp á sumarlestur fyrir 6-12 ára börn í samvinnu við Grunnskólann í Hveragerði.
Markmið sumarlestrarins er að viðhalda og auka lestrarfærni barna. Skráning í sumarlesturinn hófst í gær, föstudag, en foreldrar eru hvattir til að koma með börnunum á safnið í fyrsta sinn.
Sumarlesturinn stendur yfir til 12. ágúst en hægt er að byrja að lesa hvenær sem er á tímabilinu. Bækur hafa verið fengnar að láni úr grunnskólanum til að hafa fleiri eintök af vinsælu efni, en einnig keypt nýtt léttlestrarefni.
Öllum er velkomið að lesa á bókasafninu, en það er líka hægt að lesa heima, uppi í rúmi eða sófa, á gólfinu, úti í garði, inni í tjaldi, í sumarbústaðnum, uppi í Hamri eða bara hvar sem er.
Á miðvikudögum eru dregin fram spil og fleira og nokkra miðvikudaga verður eitthvað spennandi um að vera, auk þess sem safnið er skreytt með stórum bókadreka.
Á Blómstrandi dögum verður svo uppskeruhátíð með tilheyrandi happdrætti.