Sunnlenska bókakaffið sækir í sig veðrið á þessu hausti og gefur út níu bækur fyrir þessi jól.
Bókakaffið sem er rekið af þeim hjónum Elínu Gunnlaugsdóttur og Bjarna Harðarsyni starfrækir bókaútgáfuna undir tveimur heitum, annarsvegar sem Bókaútgáfan Sæmundur og hinsvegar sem Bókasmiðjan Selfossi. Bæði þessi firma sem og sjálft bókakaffið eru rekin af hlutafélaginu Sunnan 4 ehf sem stofnað var í ársbyrjun 1992.
Aðspurður afhverju útgáfufélögin eru tvö sagði Bjarni Harðarson bókaútgefandi að merkin sem bækurnar eru gefnar út undir vísi einfaldlega til mismunandi forms á útgáfu. Bókasmiðjumerkið eigi við þegar um sé að ræða útgáfu þar sem ábyrgðinni á útgáfustarfinu sé skipt milli útgefenda og höfundar. Sæmundur sé aftur á móti hefðbundin bókaútgáfa sem byggi á almennum samningum útgefenda við Rithöfundasambandið.
Bækurnar sem Sæmundur gefur út á þessu ári eru eftirtaldar: Mennirnir með bleika þríhyrninginn, Sýnisbók safnamanns, Undir ósýnilegu tré, Vettlingar frá Vorsabæ og Strengir á tímaflakki. Bókasmiðjan gefur út bækurnar Mannlífsmyndir, Bleikir fiskar, Tröllin í Esjufjalli og Krosshólshlátur.