Sunnlenskar raddir flytja lög Björgvins Þ.

Sunnlenskar raddir. Ljósmynd/Aðsend

Miðvikudaginn 2. apríl halda Sunnlenskar raddir tónleika í Selfosskirkju þar sem kórinn flytur lög sunnlenska tónskáldsins, Björgvins Þ. Valdimarssonar, undir stjórn Stefáns Þorleifssonar.

„Björgvin kom að máli við Stefán stjórnanda Sunnlenskra radda og vildi fá hann til að útsetja lögin fyrir kórinn og fá flutt á tónleikum í vor. Við í stjórn kórsins vorum sammála um að þetta væri spennandi verkefni og auðvitað upp með okkur að þekkt tónskáld og útsetjari skyldi leita til okkar,“ segir Alexander Freyr Olgeirsson, meðlimur Sunnlenskra radda.

„Það sem gerir þetta enn meira spennandi er að Björgvin mun heyra þessar raddsetningar í fyrsta sinn á tónleikunum. Hann ætlar að mæta og kynna lögin á sama tíma og hann fær nýja nálgun á sína eigin tónlist.“

Þekktasta lag Björgvins er án efa lagið „Undir dalanna sól“. Meðal annarra perla má nefna „Einhvers staðar þú“, „Fyrirmyndir“, „Sýnin“, „Mamma“ og „Allt sem ég er“. Lög Björgvins hafa verið flutt af fjölmörgum kórum og tónlistarfólki og skipta útgefin verk hans tugum.

Sunnlenskar raddir æfa á hverju þriðjudagskvöldi í Stekkjaskóla á Selfossi. „Hilmar skólastjóri var svo vænn að leyfa okkur að æfa þar inni. Æfingar hafa gengið ágætlega en það hefur stundum verið snúið að halda æfingar vegna árstíðarbundinna pesta og veðurs. Kórfélagar koma víða að, frá Hvolsvelli og til Þorlákshafnar,“ segir Alexander og bætir því við að kórinn sé spenntur fyrir komandi tónleikum.

Fjölbreytt útsetning laga
Alexander segir að fólk megi eiga von á notalegum tónleikum með ljúfri tónlist á miðvikudaginn. „Stefán verður mestmegnis við flygilinn, þar sem hann er best geymdur. Við skilum sumum lögunum a-capella, öðrum með einsöng og eitt verður flutt frá orgelloftinu því Stefáni fannst orgelið hæfa því lagi best.“

Þess má geta að a-cappella er ítalskt tónlistarhugtak sem þýðir „í stíl kirkjunnar“ og er notað um söng án undirleiks.

„Við hvetjum Sunnlendinga til að mæta á tónleikana í Selfosskirkju og njóta með okkur og tónskáldinu sunnlenska. Aðgangseyri er stillt í hóf eða 3.500 krónur. Að þessu verkefni loknu taka svo við önnur verkefni hjá kórnum. Við syngjum á tónleikum á Hvolsvelli með dönskum a-capella kór laugardaginn fyrir páska og svo tökum við þátt í tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í maí,“ segir Alexander að lokum.

Facebook-viðburður tónleikanna.

Fyrri greinVíðir ráðinn framkvæmdastjóri Sorpstöðvar Rangárvallasýslu
Næsta greinSelfoss átti stjörnuleik í Garðabænum