Tónlistarhátíðin Englar og menn hefst að nýju eftir árshlé í Strandarkirkju í Selvogi næstkomandi sunnudag með tónleikum kl. 14.
Á fyrstu tónleikum sumarsins koma fram sunnlensku einsöngvararnir María Sól Ingólfsdóttir sópran og Gunnlaugur Bjarnason baritón. Einar Bjartur Egilsson leikur með þeim á píanó og harmóníum.
María Sól Ingólfsdóttir er fædd og uppalin á Engi í Laugarási í Biskupstungum. Hún hefur unnið að fjölbreyttum verkefnum, óperum og hátíðum á sviði klassískrar- og samtímatónlistar seinustu ár. Hún útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands árið 2019, hóf nám í Konunglega tónlistarháskólans í Den Haag í Hollandi en seinasta árið hefur hún sótt einkatíma hjá Janet Haney í London. María Sól trúir því að tónlist sé galdur. Hún var valin söngvari ársins árið 2021 fyrir hlutverk sitt í óperunni Ekkert er sorglegra en manneskjan.
Gunnlaugur Bjarnason baritónsöngvari er uppalinn á Selfossi þar sem hann tók sín fyrstu skref í tónlist við Tónlistarskóla Árnesinga. Hann lauk framhaldsprófi í söng frá Menntaskóla í tónlist árið 2020. Nú leggur hann stund á meistaranám í sama fagi við Konunglega tónlistarháskólann í Den Haag í Hollandi. Í janúar 2022 mun Gunnlaugur leika sitt fyrsta óperuhlutverk í uppsetningu á óperunni Mærþöllu eftir Þórunni Guðmundsdóttur.
Einar Bjartur Egilsson lærði á píanó í Tónlistarskóla Mývatnssveitar, Tónskóla Sigursveins og síðar í Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Peters Máté en eftir Listaháskólann lagði hann stund á framhaldsnám í píanóleik í Hollandi. Einar hefur spilað með ýmsum tónlistarmönnum bæði hérlendis og í Hollandi og gefið út þrjár hljómplötur. Hann starfar nú sem píanókennari og meðleikari við Tónlistarskóla Árnesinga ásamt því að leika reglulega með kórum og listafólki á tónleikum og sýningum.
Aðgangseyrir á tónleikana er kr. 3.000 en tónlistarhátíðin er styrkt af Tónlistarsjóði Rannís og Sambandi sunnlenskra sveitarfélaga.
Listrænn stjórnandi hátíðarinnar er sem fyrr Björg Þórhallsdóttir.
Næstu viðburðir:
Sunnudagur 25. júlí kl. 14
Hvíldu, hjarta, hvíldu
Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir (Lay Low)
Agnes Erna Estherardóttir söngur
Anna Margrét Hraundal gítar
Sunnudagur 8. ágúst kl. 14
Í sjöunda himni
Sigríður Aðalsteinsdóttir mezzósópran
Bjarni Thor Kristinsson bassi
Helga Bryndís Magnúsdóttir píanó / harmóníum
Sunnudagur 15. ágúst kl. 14
Til Maríu
Lokatónleikar og guðsþjónusta á Maríumessu
Björg Þórhallsdóttir sópran
Elísabet Waage harpa
Hilmar Örn Agnarsson harmóníum
Prestur sr. Ninna Sif Svavarsdóttir