Tónlistarnemar á Reykjanesi, Suðurlandi, Austurlandi og Norðurlandi láta ljós sitt skína í þriðja og síðasta þætti Netnótunnar á N4 sem sýndur verður sunnudagskvöldið 27. júní. Í þáttunum hafa tónlistarskólar landsins opnað dyr sínar og sýnt frá fjölbreyttu starfi sínu.
Í júní hafa landsmenn getað skyggnst inn í starf tónlistarskóla landsins í sjónvarpsþáttunum Netnótan sem er uppskeruhátíð tónlistarskólanna fyrir árið 2021. Tónlistarskólar landsins sendu inn myndbönd úr skólastarfinu sem N4 hefur fléttað saman í þrjá þætti og flestir tónlistarskólar landsins tóku þátt í verkefninu.
Meðal skóla sem eiga innslög í þriðja og síðasta þættinum sem sýndur verður á sunnudagskvöldið 27. júní eru Tónlistarskóli Árnesinga, Tónlistarskóli Rangæinga og Tónskóli A-Skaftafellssýslu.
Athugið: Myndbönd hvers skóla, í heild sinni, verða birt á vefsíðu KÍ og FB síðu Nótunnar á sama tíma og viðkomandi sjónvarpsþáttur verður sýndur. Þegar allir þættirnir hafa verið sýndir verða svo öll myndböndin einnig aðgengileg í N4 safninu á sjónvarpi Símans.