Næstu vikur stendur Tónskóli Mýrdalshrepps í fyrsta skipti fyrir tónleikaröðinni Sunnlenskur tónblær. Hugmyndasmiður og stjórnandi tónleikaraðarinnar er Alexandra Chernyshova, tónskólastjóri í Vík.
Fyrstu tónleikarnir verða í sal Tónskólans laugardaginn 21. september kl. 17:00, söngtónleikarnir „Ástin er…“. Þar koma fram Alexandra Chernyshova, sópran og Kjartan Valdemarsson, píanóleikari.
Aðrir tónleikarnir verða í Víkurkirkju fimmtudaginn 26. september kl. 19:30. Þar mun Jón Bjarnason, dómorganisti í Skálholti, flytja verk eftir Bach og fleiri á orgeltónleikum.
Laugardaginn 28. september verða þriðju tónleikarnir kl. 17:00 í Víkurkirkju. Það eru gítar- og söngtónleikarnir „Mitt er þitt“ en flytjendur eru Guðrún Ólafsdóttir, mezzósópran og Javier Jáuregui, gítarleikari.
Síðustu tónleikarnir í tónleikaröðinni eru síðan flygiltónleikar laugardaginn 5. október í sal Tónskólans þar sem Kjartan Valdemarsson, píanóleikari og tónskáld, mun fara höndum um flygilinn.
Styrktaraðilar tónleikaraðarinnar eru Uppbyggingarsjóður Suðurlands, Hótel Vík, Krónan í Vík og Víkurkirkja.