Sunnudaginn 18. september kl. 15 mun Erla Þórarinsdóttir ganga um sýninguna Tímalög með gestum í Listasafni Árnesinga.
Erla mun segja frá verkum sínum, ræða um sýninguna og svara spurningum gestanna, en á sýningunni má sjá verk eftir Erlu (1955) og Karl Kvaran (1924-89). Þar má sjá málverk eftir Karl frá tímabilinu 1968–1978 og verk eftir Erlu frá síðustu tíu árum, einkum málverk en einnig skúlptúrar. Í málverki eru undirliggjandi tímalög og hrynjandi sem pensilfarið skráir en sýnileiki tækninnar er eitt af einkennum málverksins sem miðils segja sýningarstjórarnir Aðalheiður Valgeirsdóttir og Aldís Arnardóttir m.a. í texta sýningarskrár sem gefin er út með sýningunni.
Verk Erlu eru byggð upp af línuteikningu sem sveigir og beygir formin svo þau framkalla sjónræn þrívíddaráhrif. Oft má sjá glitta í undirlög á yfirborðinu sem gera myndflötinn lifandi og kvikan. Erla leggur verkin sín oft blaðsilfri sem ýmist þekur ákveðin form eða undirstrikar einstaka þætti þeirra. Erla lætur silfrið oxast og við það breytist litur þess. Þegar Erla vill stoppa ferlið lakkar hún yfir verkið og oxunin hættir. Eitt verka hennar á sýningunni, Oxun á flekaskilum, er enn virkt, þ.e.a.s. ekki er búið að lakka yfir það og stoppa ferlið og áhugavert að fylgjast með þeim breytingum sem verða á því meðan á sýningunni stendur.
Erla nam myndlist í Svíþjóð og lauk námi frá Konstfack, lista- og hönnunarháskólanum í Stokkhólmið árið 1981 og var gestanemi við Gerrit Rietweld Akademie í Hollandi sama ár. Erla bjó um árabil í Stokkhólmi og kom þar að rekstri listamannagalleríanna ZON og Barbar, auk þess að starfa við myndlist og hönnun. Hún hefur ferðast víða og hefur m.a. búið og starfað í New York, Kína og Marokkó.
Sýningin Tímalög mun standa til og með 13. nóvember og í ágúst og september er safnið opið alla, en frá og með október er safnið opið fimmtudaga til sunnudaga kl. 12 – 18. Aðgangur að safninu er ókeypis og allir velkomnir – líka á listamannsspjallið.