Sunnulækjarskóli á Selfossi sigraði í Skjálftanum, hæfileikakeppni grunnskólanna í Árnessýslu, sem haldin var í fyrsta skipti um helgina.
Vegna sóttvarnaaðgerða gátu þátttakendur ekki sýnt atriðin fyrir fullum sal af fólki eins og til stóð, svo atriðin voru tekin upp í Íþróttamiðstöðinni í Þorlákshöfn á laugardag og sýnd á RÚV2 í gærkvöldi. Úrslitastundin var svo í beinni útsendingu á Instagramsíðu Skjálftans og var hún heldur betur spennuþrungin. Salka Sól, formaður dómnefndar, birtist í Sunnulækjarskóla og afhenti liði skólans sigurlaunin, glæsilegan farandgrip eftir Ágústu Ragnarsdóttur.
Í 2. sæti var Grunnskólinn í Þorlákshöfn og í 3. sæti var Bláskógaskóli á Laugarvatni. Átta skólar úr Árnessýslu tóku þátt í þessum fyrsta Skjálfta en á næsta ári fá allir skólar á Suðurlandi boð um þátttöku.
Salka Sól sagði að mjög mjótt hafi verið á munum í efstu sætum Skjálftans og að greinilegt sé að sunnlenskir unglingar séu ákaflega hæfileikaríkir.
Sunnulækjarskóli í 1. sæti
Atriði Sunnulækjarskóla heitir Tímaflakkarinn, þar sem ferðast var í tíma frá árinu 1900 til dagsins í dag og skoðað hvernig samskipti fólks í tilhugalífi hafa breyst í tímanna rás. Dómnefndin hafði meðal annars þetta um atriði Sunnulækjarskóla að segja:
Skemmtilegt atriði og oft fyndið með skýrum þræði og skemmtilegum týpum. Mikið lagt í handritið og þau fá plús fyrir tungumál og íslenska söngtexta. Atriðið var vel útfært og leiknu atriðin og textinn í þeim voru mjög skemmtileg. Hæfileikarnir felast í hópnum sem flytur atriðið í heild af miklum metnaði og gleði og leysir vel ör búninga og senuskipti. Póstmaðurinn var æðislegur rauður þráður. Greinilegt að krakkarnir skemmtu sér mjög vel og atriðið hélt allan tímann.
Grunnskólinn í Þorlákshöfn í 2. sæti
Annað sætið hreppti Grunnskólinn í Þorlákshöfn fyrir atriðið sitt Af hverju? sem fjallar um kynbundið ofbeldi og spurninguna af hverju stelpum sé stöðugt kennt að passa sig. Dómnefnd hafði þetta að segja um atriðið:
Boðskapurinn er mjög skýr og mikilvægur og greinileg ástríða fyrir viðfangsefninu. Kóreógrafían er metnaðarfull og vel æfð, mikið öryggi í flutningi, bæði í dansi og söng. Allt mjög hnökralaust. Margar dramatískar og fallegar myndir sem birtist og hópurinn mjög hæfileikaríkur.
Bláskógaskóli á Laugarvatni í 3. sæti
Í þriðja sæti var Bláskógaskóli á Laugarvatni með atriðið Strengjabrúður sem fjallar um það hvað manneskjan er ofsalega föst í skjánum sínum og missir tengingu við veruleikann, annað fólk, vini, fjölskylduna og sjálft sig. Það fjallar um nettröllið og hvernig það stýrir okkur öllum og að við þurfum að klippa á strenginn til að öðlast frelsi. Dómnefnd hafði þetta að segja um atriðið:
Hljóðmynd var vel unnin og förðun var áhugaverð. Atriðið er greinilega vel æft og var mjög fumlaust og samvinna og útfærsla í heildina mjög góð. Það var skapandi nálfun að nota íslenskar tröllasögur og tala þannig um nettröllin og glimmerið í andlitinu gott myndmál sem tákn um glansmynd samfélagsmiðla. Í heildina var atriðið vel unnið, með skýran heildrænan svip. Leikur og dans var unninn af alúð og af sannleika.
Hægt er að sjá Skjálftann á ungruv.is.