Lúðrasveit Þorlákshafnar stendur í ströngu þessa dagana, eins og oft áður, en nú er komið að árlegum vortónleikum þeirra.
Að þessu sinni er yfirskriftin Brassrokk og gestirnir eru síðhærðu rokkararnir Eyþór Ingi Gunnlaugsson, stórsöngvari og Þráinn Árni Baldvinsson gítarleikari Skálmaldar. Þema tónleikanna er rokktónlist og munu þekktir rokkslagarar frá mismunandi tímabilum hljóma, bæði íslenskir og erlendir.
Í gærkvöldi voru fyrri tónleikarnir haldnir í Seljakirkju í Reykjavík við góðar undirtektir tónleikagesta. Einn þeirra sagði eftir tónleikana: „Maður lifandi hvað þetta voru frábærir tónleikar. Það má bara enginn láta þessa tónleika fram hjá sér fara. Grípið tækifærið og mætið í íþróttahús Þorlákshafnar á laugardaginn þið verðið ekki svikin.“
Tónleikarnir á laugardaginn verða kl. 15 í íþróttahúsi Þorlákshafnar. Lúðrasveitin auglýsti þá upphaflega kl. 17 en ákvað að færa þá fram um tvær klukkustundir þegar ljóst varð að körfuboltaliðið þeirra, Þór myndi keppa við KR í undanúrslitum kl. 20 þennan sama dag.
Að sögn Lúðrasveitarinnar þá er í raun eins og þetta sé allt skrifað í skýin því tónlistin gæti ekki verið mikið meira við hæfi í þessum aðstæðum, lög eins og Show Must Go On, Higher and higher, Killing in the name með hljómsveitinni Rage Against the Machine, Kvaðning með Skálmöld og Fjöllin hafa vakað svo eitthvað sé nefnt.
Allt saman lög sem fá hvern mann til að vilja ganga á hæsta tind og varla hægt að hugsa sér betri „pepp“ fyrir stuðningsmenn, en að koma fyrst á tónleika og skunda svo beint í stúkurnar í Vesturbænum og hvetja sitt lið áfram.
Þetta verður sem sagt svakalegur dagur í Þorlákshöfn, fyrst stórtónleikar og svo stórleikur Þórs og KR þar sem staðan er 1-1 og spennustigið í hámarki.
Miðasala á tónleikana er á midi.is og svo verður einnig hægt að kaupa miða við hurð frá kl. 14 á tónleikadag.