„Svo er lífið náttúrulega grátbroslegt“

Dúu, Duddu og Didda er fylgt frá vöggu til grafar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Síðastliðið föstudagskvöld frumsýndi Leikfélag Selfoss verkið Listin að lifa eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur í leikstjórn Jónheiðar Ísleifsdóttur.

Fimm leikarar taka þátt í sýningunni og koma þeir úr ýmsum áttum og eru sumir að stíga sín fyrstu skref meðan aðrir hafa mikla reynslu með leikfélaginu. Leikstjórinn er hins vegar vel kunnugur staðháttum í leikhúsinu við Sigtún en Jónheiður er einnig formaður leikfélagsins.

Listin að lifa er um þrjá vini, alveg frá blautu barnsbeini og fram á grafarbakkann og meira að segja lengra. Við förum í gegnum lífið með þeim, gleði og sorgir og ýmsar óvæntar uppákomur,“ segir Jónheiður og bætir við að sýningin sé á léttu nótunum.

Það gengur á ýmsu á lífsleiðinni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

„Mér finnst svo gaman að gera sýningar sem snerta. Við erum að reyna að gera þetta fallegt og svo er lífið náttúrulega grátbroslegt. Verkið sjálft er mjög fyndið, þetta er skemmtilega skrifaður texti þannig að það kemur alveg í gegn í leiknum,“ bætir Jónheiður við. Hún hefur áður leikstýrt stuttverkum en þetta er fyrsta stóra uppsetningin sem hún leikstýrir.

„Þetta er það skemmtilegasta í heimi. Þetta er mjög skemmtileg reynsla, hópurinn er frábær og þau hafa náð mjög vel saman og það hefur mikil og góð vinna átt sér stað hér síðustu fimm vikurnar.“

Hef átt skemmtilegri tímabil í leikhúsinu
Framkvæmdir hafa staðið yfir í leikhúsinu við Sigtún undanfarin ár en með þeim á að stækka anddyri hússins og bæta aðgengi og aðstöðu fyrir hjólastóla. Félagið hefur ekki sett upp stóra sýningu á meðan, fyrr en nú.

„Við sýndum síðast haustið 2021 og eftir það var byrjað á framkvæmdunum, sem við erum mjög spennt fyrir. Við höfum haldið námskeið og leiklestra og minni viðburði á meðan. Í desember í fyrra flæddi svo inn í kjallarann hjá okkur þannig að við tæmdum hann og skiptum um öll gólfefni og fórum í allsherjar tiltekt. Þannig að þetta hlé hefur nýst okkur vel þó að ég viðurkenni að ég hafi alveg átt skemmtilegri tímabil í leikhúsinu,“ segir Jónheiður og bætir við í lokin að vetrarstarfinu sé hvergi nærri lokið.

Jónheiður Ísleifsdóttir, leikstjóri sýningarinnar og formaður Leikfélags Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

„Nei, svo erum við bara að hlaða í aðra sýningu eftir áramót og höfum ráðið Rakel Ýr Stefánsdóttur til þess að leikstýra. Hún er heimakona, uppalin hjá Leikfélagi Selfoss en er í dag leikkona í Borgarleikhúsinu. Undirbúningur hefst í lok nóvember og fram í desember og svo fer allt á fullt eftir áramót,“ segir Jónheiður að lokum.

Sýningarfjöldinn á Listin að lifa er takmarkaður við tíu sýningar en lokasýning verður laugardaginn 16. nóvember. Miðasala fer fram á tix.is.

Fyrri greinSögulegur sigur Selfoss
Næsta greinLaugalandsskóli datt í lukkupottinn