Næstkomandi sunnudag munu þau Valgerður Guðnadóttir og Felix Bergsson halda tónleika á Hendur í höfn í Þorlákshöfn þar sem þau syngja lög úr teiknimyndum.
„Okkur leist auðvitað stórvel á að halda tónleika á Hendur í höfn enda skemmtilegt prógram og tónleikastaðurinn alveg dásamlegur. Svo finnst okkur líka svo gaman að spila og syngja saman,“ segir Valgerður í samtali við sunnlenska.is.
Auk Valgerðar og Felix mun Vignir Stefánsson píanóleikari verða þeim til halds og trausts.
„Við ætlum að flytja allskonar skemmtileg lög úr ólíkum teiknimyndum og bregða okkur í ýmis hlutverk eins og til dæmis hlutverk Aladdin og Jasmin, Pocahontas, Litlu hafmeyjunnar, Tímon og Púmba og Simba úr Lion King. Við Felix höfum leikið og sungið allskyns teiknimyndakaraktera og Felix alveg ótrúlega marga sem gaman er að rifja upp og svo bætum við við lögum eins og úr Frozen og fleiri myndum,“ segir Valgerður.
Disney lögin ótrúlega flott
Valgerður segir tónleikana vera fyrir fólk á öllum aldri, börn og fullorðna. „Melódíurnar eru fyrir löngu orðnar klassískar og við lofum svo sannarlega líflegum og yndislegum tónleikum. Þessi Disney lög eru svo ótrúlega flott og skemmtileg.“
„Við höfum haldið tónleika með þessu sniði nokkrum sinnum til dæmis í Salnum í Kópavogi og í Hofi á Akureyri og viðtökurnar hafa ávallt verið frábærar. Þá var Þór Breiðfjörð einnig með okkur og brá sér í hin ýmsu hlutverk,“ segir Valgerður.
„Börn og ekki síður fullorðnir virðast virkilega njóta þess að heyra þessi lög og krakkarnir hafa líka gaman af sprellinu sem fylgir mörgum karakterunum eins og til dæmis Tímon og Púmba. Svo má líka syngja með ef maður vill í sumum lögum,“ segir Valgerður að lokum.