„Syngið þið fuglar“ í Strandakirkju

Lilja Guðmundsdóttir, sópran. Ljósmynd/Aðsend

Englar og menn – tónlistarhátíð Strandakirkju hófst síðastliðinn sunnudag og stendur til 11. ágúst. „Syngið þið fuglar“ er yfirskrift næstu tónleika hátíðarinnar, sunnudaginn 7. júlí næstkomandi.

Þar koma fram söngkonurnar Lilja Guðmundsdóttir sópran og Kristín Sveinsdóttir mezzósópran og með þeim leikur Helga Bryndís Magnúsdóttir á harmóníum og píanó. Gestur þeirra á tónleikunum verður Bjarni Thor Kristinsson bassi.  Á efnisskránni eru einsöngslög, aríur og dúettar eftir Mendelssohn, Monteverdi, Atla Heimi Sveinsson, Jón Ásgeirsson og Jóhann G. Jóhannsson ásamt íslenskum og enskum þjóðlögum.

Björg Þórhallsdóttir sópransöngkona er listrænn stjórnandi og framkvæmdastjóri hátíðarinnar, sem er styrkt af Sambandi sunnlenskra sveitarfélaga, Tónlistarsjóði og Strandakirkjunefnd.

Aðgangseyrir að tónleikunum er 2.900 kr.

Strandakirkja er ein þekktasta áheitakirkja landsins og þykir þar vera sérstakur kraftur til hjálpar og bænheyrslu. Yfirskrift hátíðarinnar vísar til helgisagnarinnar um fyrstu kirkjuna þar, um ljósengilinn sem birtist sæförum í sjávarháska og þeir hétu á í örvæntingu sinni. Hann vísaði þeim að landi og þeir reistu þar kirkju í þakklætisskyni.

Mikil fegurð er í Selvoginum og tilvalið er að taka með sér nesti eða fá sér veitingar hjá heimamönnum.  
Fyrri greinÁrborgarar nálgast tíunda þúsundið
Næsta greinViðamiklar aðgerðir til að auka kolefnisbindingu og efla lífríki