Syngja allt milli himins og jarðar

Sunnlenskar raddir á æfingu. Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sunnlenskar raddir er nýr kór á Suðurlandi sem var stofnaður síðastliðið sumar.

Sunnlenskar raddir er blandaður kór, það er að segja fyrir bæði konur og karla, sem syngur allt milli himins og jarðar. Við erum þessa dagana að syngja Bítlana, gömul íslensk dægurlög, Queen ásamt fleiru,“ segir Margrét Harpa Jónsdóttir, einn af stofnendum kórsins, í samtali við sunnlenska.is.

Auk Margrétar eru þau Hrefna Morthens og Stefán Þorleifsson stofnendur kórsins.

„Mér fannst vanta blandaðan kór á Selfoss þar sem ekki væri einungis sungin klassísk tónlist. Við létum svo verða af því í sumar að þreifa fyrir okkur og kom strax í ljós að það voru fleiri á sama máli og út frá því var kórinn stofnaður í ágúst og við byrjuðum svo með æfingar í september,“ segir Margrét en um fjörutíu manns eru skráðir í kórinn núna.

Margréti Hörpu fannst vanta blandaðan kór á Selfoss þar sem ekki væri einungis sungin klassísk tónlist. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ekkert aldurstakmark
Margrét segir að eins og staðan sé í dag þá séu engin aldurstakmörk í kórinn. „Við erum með fólk á öllum aldri, alveg frá tvítugu og upp úr. Kórinn er fyrir bæði kynin og viljum við sérstaklega hvetja karla að ganga til liðs við okkur,“ segir Margrét sem bendir áhugasömu söngfólki á að hafa samband við sig.

„Við verðum með tónleika í Selfosskirkju þann 29. nóvember næstkomandi. Á dagskránni eru lög sem við erum búin að vera að æfa í vetur ásamt hljómsveit og svo verða einnig einsöngvarar. Allir velkomnir,“ segir Margrét að lokum.

Stefán Þorleifsson, stjórnandi Sunnlenskra radda, er þaulvanur kórstjóri. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinÖlvaður í árekstri á Selfossi
Næsta greinLeitað að vitnum að ákeyrslu