Viltu koma og heyra hvernig kaffikvörn syngur? Má bjóða þér að óma HAFSJÓR inná hljóðlistaverk eða þrykkja stein á tau? Eða langar þig að sjá hvernig listamenn umbreyta kartöfluskemmu í svið og stíga dans við undarlega tóna?
Ef þetta hljómar áhugavert þá ættir þú endilega að leggja leið þína á Eyrarbakka um helgina en þar stendur nú yfir alþjóðlega listahátíðin Hafsjór – Oceanus.
Á föstudagseftirmiðdag 3. júní kl. 17.00 taka nokkrir listamenn á móti gestum í byggðasafninu í Húsinu. Anil Subba hljóðlistamaður frá Nepal ásamt Im Tae Woong frá Suður Kóreu sýna hvernig þeir draga hljóð úr ólíkum hlutum. Kaffikvörn er orðin hluti af hljóðfærum þeirra. Einnig fá gestir að þrykkja með bleki á tau undir leiðsögn Sung Baeg frá Suður Kóreu og fólk má gjarnan koma með eigin bol til að þrykkja á ef það óskar þess. Pólverjinn Piotr Zamojski er að vinna að hljóðlistaverki um hafið og óskar eftir aðstoð frá fólki. Hann verður inni í Eggjaskúr að taka upp raddir fólks. Þetta er mjög einfalt; þáttakendur eru beðnir um að segja upphátt: Hafsjór eða H-A-F-S-J-Ó-R. Upptökurnar verða síðan hluti af listaverki hans á sýningu í Húsinu í sumar.
Snemma kvölds, sunnudaginn 5. júní kl. 18.00 verður svo haldinn einstakur dans- og hljóðgjörningur um vindinn og hafið í gömlu kartöflugeymslunni hans Guðmundar á Sandi. Þar munu listamenn frá öllum heimshornum umbreyta gömlu skemmunni í danssvið. Dansinn ásamt tónlist er spunnin úr upplifun listamannanna á einstakri náttúrunni við strendur Suðurlands. Hópurinn sem þar kemur fram er Gio Ju, Jaime Martínez, Hera Fjord og Maruska Marulyn Ronchi, ásamt hljóðlistamönnunum Anil Subba og Im Tae Woong.
Viðburðirnir eru hluti af alþjóðlegu listahátíðinni Hafsjór – Ocenaus. En frá miðjum maí hafa 20 listamenn frá 12 ólíkum löndum dvalið á Eyrarbakka og unnið að list sinni.
Frítt er á báða viðburði og allir velkomnir.