Sunnudaginn 16. október kl. 15 mun Aldís Arnardóttir annar sýningarstjóra sýningarinnar „Tímalög – Karl Kvaran og Erla Þórarinsdóttir“ í Listasafni Árnesinga ganga með gestum um sýninguna.
Á sýningunni má sjá málverk eftir Karl (1924-89) frá tímabilinu 1968–1978 og verk eftir Erlu (1955) frá síðustu tíu árum, einkum málverk en einnig skúlptúra. Í málverki eru undirliggjandi tímalög og hrynjandi sem pensilfarið skráir en sýnileiki tækninnar er eitt af einkennum málverksins sem miðils segja sýningarstjórarnir Aðalheiður Valgeirsdóttir og Aldís Arnardóttir m.a. í texta sýningarskrár sem gefin er út með sýningunni. Ferill tímans sem greina má í verkum Karls og Erlu er sameiginlegur þráður. Undirmeðvitund málverksins kemur fram í mismunandi tímalögum sem Erla og Karl vinna með á persónulega hátt.
Karl Kvaran rannsakaði möguleika og þanþol gvasslitarins rækilega og vann nánast óslitið með hann í tæpa tvo áratugi, allt frá árinu 1956. Verk hans frá þessum tíma grundvallast á kröftugri línuteikningu sem síðar leikur mikilvægt hlutverk í olíumálverkum hans á 8. áratugnum.
Verk Erlu eru byggð upp af línuteikningu sem sveigir og beygir formin svo þau framkalla sjónræn þrívíddaráhrif. Erla leggur verkin sín oft blaðsilfri sem ýmist þekur ákveðin form eða undirstrikar einstaka þætti þeirra. Með því að leyfa silfrinu að oxast breytist litur þess og eitt verkanna á sýningunni er enn virkt, þ.e.a.s. ekki er búið að lakka yfir það og stoppa ferlið og áhugavert að fylgjast með þeim breytingum sem verða á því meðan á sýningunni stendur.
Aldís er sjálfstætt starfandi listfræðingur og sýningarstjóri. Hún útskrifaðist með MA-gráðu í listfræði við Háskóla Íslands árið 2014 og hafði áður lokið þaðan BA-prófi í listfræði, með menningarfræði sem aukagrein árið 2012.
Sýningin Tímalög mun standa til og með 13. Nóvember. Í október hefur vetraropnun tekið gilldi en þá er safnið opið fimmtudaga til sunnudaga kl. 12 – 18. Aðgangur að safninu er ókeypis og allir velkomnir – líka á sýningarspjallið.