Sigríður Melrós Ólafsdóttir mun í dag ræða við gesti um verk þeirra Arnars Herbertssonar, JBK Ransu og Davíðs Arnar Halldórssonar sem til sýnis eru í Listasafni Árnesinga undir yfirskriftinni Almynstur.
Sýningarstjóraspjallið hefst kl. 15. Á sýningunni leitast Sigríður við að varpa ljósi á það sem sameinar þá í ljósi listasögunnar og skoðar hvað þeir eigi sameiginlegt og hvað skilur þá að en þeir eru allir starfandi listmálarar þriggja kynslóða á aldrinum 78 ára til 35 ára.
Sigríður Melrós er menntaður myndlistarmaður en hefur snúið sér æ meir að sýningargerð og sýningarstjórnun. Hún er nú deildarstjóri sýningardeildar Listasafns Íslands.
Listasafn Árnesinga er nú opið samkvæmt vetraropnun sem er fimmtudaga til sunnudaga kl. 12-18. Aðgangur er ókeypis en hægt að kaupa sér kaffi og meðlæti á staðnum ásamt því að líta í ýmis rit um myndlist.