Í dag kl. 15 mun Margrét Elísabet Ólafsdóttir sýningarstjóri Snertipunkta ræða við gesti um verkin á sýningunni í Listasafni Árnesinga í Hveragerði.
Verkin eru eftir listamennina Önnu Eyjólfsdóttur, Birgi Snæbjörn Birgisson, Helga Hjaltalín Eyjólfsson, Helga Þorgils Friðjónsson, Ragnhildi Stefánsdóttur, Þórdísi Öldu Sigurðardóttur og Þuríði Sigurðardóttur.
Sýningunni hefur verið vel tekið af gestum og sum verkin kalla beinlínis á þátttöku gesta. Snertipunktar samanstendur af fjölbreyttum verkum sjö íslenska myndlistarmenn sem fæddir eru á árunum 1948-1966. Þeir hafa sýnt verk sín sem sem tveir aðskildir listamannahópar en listamennirnir hafa einnig staðið að rekstri sýningarýma svo sem Gallerí Gangur, StartArt galleríið, gallerí Skilti og galleríð 20m2.
Viðfangsefni og efnisnotkun þessarra listamanna er ólík og endurspeglar gróskuna í íslenskri samtímamyndlist. Allir listamennirnir eiga það sameiginlegt að hafa verið virkir í íslensku listalífi og jafnframt skapað sér vettvang erlendis.
Sýningarstjórinn, Margrét Elísabet Ólafsdóttir, sem ólst upp á Selfossi, er doktor í list- og fagurfræði frá Sorbonne háskólanum í París. Hún hefur valið saman verkin á sýninguna og ritar einnig grein í sýningaskrá þar sem hún fjallar um félagslegt samhengi myndlistar í sögulegu ljósi og veltir fyrir sér starfsumhverfi íslenskra myndlistarmanna.
Margrét hóf feril sem blaðamaður árið 1987 og skrifaði fyrir ýmis dagblöð og tímarit á námsárunum, aðallega um listir og menningu. Hún var deildarstjóri listaverka- og sýningardeildar Listasafns Íslands í eitt ár, en frá árinu 2002 hefur hún fengist við rannsóknir á raf- og stafrænum listum með áherslu á sögu þessara lista á Íslandi. Margrét var skipuleggjandi raflistahátíðarinnar Pikslaverk árið 2010 og 2011 og ein af sýningarstjórum sýningarinnar Sjónarmið – á mótum myndlistar og heimspeki í Listasafni Reykjavíkur árið 2011. Árið 2013 skipulagði hún gjörninginn Power Struggle eftir Olgu Kisseleva í Nýlistasafninu og sýninguna Íslensk vídeólist frá 1975-1990 í Listasafn Reykjavíkur sem var byggð á rannsóknum hennar.
Sýningin Snertipunktar mun standa til 14. september. Listasafn Árnesinga er opið alla daga kl. 12 – 18. Aðgangur að safninu er ókeypis, allir velkomnir og góð aðstaða fyrir börn.