Í Listasafni Árnesinga í Hveragerði stendur nú sýningin Gjöfin til íslenzkrar alþýðu – stofngjöf Ragnars í Smára til Listasafns ASÍ.
Sunnudaginn 11. ágúst kl. 15:00 mun Kristín G. Guðnadóttir listfræðingur og sýningarstjóri sýningarinnar ganga með gestum um hana og ræða um þau verk sem þar má sjá og gjöf Ragnars í Smára sem lagði grunninn að Listasafni ASÍ.
Á sýningunni má sjá mörg öndvegisverk íslenskrar listasögu þar á meðal Fjallamjólk Kjarvals ásamt verkum eftir frumkvöðlana Ásgrím Jónsson, Þórarinn B. Þorláksson, Jón Stefánsson og síðari kynslóð listamanna eins og Gunnlaug Scheving, Jón Engilberts, Júlíönu Sveinsdóttur, Nínu Tryggvadóttur, Svavar Guðnason, Þorvald Skúlason og fleiri listamenn sem eru meðal þekktustu myndlistarmanna þjóðarinnar frá öndverðri síðustu öld.
Sýningin er samstarfsverkefni safnanna, Listasafns ASÍ og Listasafns Árnesinga og til sýnis eru 52 málverk af alls 147 sem Ragnar gaf Listasafni ASÍ. Samtímis sýningunni gaf Listasafns ASÍ út veglega bók með sama nafni um stofngjöf Ragnars þar sem sjá má gjöfina í heild.
Sem fyrr eru allir velkomnir á sýninguna og aðgangur að safninu er ókeypis, líka á spjall og leiðsögn Kristínar. Sýningin mun standa til 15. september.