Brátt lýkur sögusýningunni um Litla-Hraun sem er í borðsstofu Hússins á Eyrarbakka. Síðasti sýningardagur er á annan í hvítasunnu, mánudaginn 10. júní.
Sýningin er samstarfsverkefni Fangelsisins Litla-Hrauns og Byggðasafns Árnesinga og gerð í tilefni 90 ára afmælis fangelsisins. Þar segir frá áhugaverðri sögu stofnunarinnar en einnig litið inn í veröld fangavarða, fanga og samfélagsins í kring. Sýningin er byggð á ýmsum munum frá fangelsinu, ljósmyndum sem til eru og gagnorðum sýningartextum.
Vinnuhælið á Litla-Hrauni tók til starfa 8. mars 1929 í byggingu í útjaðri Eyrarbakka sem upphaflega var reist sem sjúkrahús en hóf svo ekki starfsemi sökum fjárskorts. Á þessum tíma voru málefni refsifanga í miklum ólestri og sáu yfirvöld þarna tækifæri til að leysa úr þeim vanda með því að fá sjúkrahúsbyggingunni það hlutverk að hýsa refsifanga. Starfsemin hét Vinnuhælið á Litla-Hrauni og voru jarðirnar Stóra- og Litla-Hraun lagðar undir starfsemina og rekinn búskapur á vinnuhælinu til 1970. Síðar var starfseminni breytt úr vinnuhæli í afplánunarfangelsi og starfsemin fékk heitið Fangelsið Litla-Hraun. Stofnunin er stærsta fangelsi landsins og eru þar allt að 87 fangar og 57 stöðugildi. Tíu byggingar eru við fangelsið.
Litla Hraun – sögusýning er opin líkt og Húsið sjálft alla daga kl. 11-18 og er upplagt að skoða aðrar sýningar Byggðasafns Árnesinga í leiðinni. Sjóminjasafn, alþýðuhúsið Kirkjubær og Eggjaskúr eru allt safnhús sem standa opin gestum og innifalin í aðgangseyri. Frítt er fyrir börn undir 17 ára aldri og afsláttur er veittur eldri borgurum og hópum. Alltaf heitt á könnunni. Verið velkomin.