Markaðs- og menningarnefnd Rangárþings eystra úthlutaði á dögunum úr Menningarsjóði sveitarfélagsins en um er að ræða fyrri úthlutun ársins.
Sjö umsóknir bárust í sjóðinn að þessu sinni og var óskað eftir styrkjum að heildarupphæð tæplega 3,2 milljónum króna. Til úthlutunar nú voru 1.750 þúsund krónur.
Jazz undir Fjöllum, Tónlistarskóli Rangæinga, Midgard Adventure og Minningarsjóður Guðmundar Jónssonar frá Hólmi hlutu hæstu styrkina, 300 þúsund krónur hver.
Lemos+Lehmann hlutu tvo styrki; 200 þúsund krónur til verkefnisins Tilfinningalandslög og 150 þúsund krónur fyrir verkefnið Bio-Based Futures. Þá hlaut hljómsveitin Koppafeiti 200 þúsund króna styrk.
Í tilkynningu frá markaðs- og menningarnefnd er því fagnað hversu mikill fjöldi góðra umsókna barst og staðfestir það að menningarlífið í Rangárþingi eystra er í miklum blóma.