Í síðustu viku kom út snertihljóðbókin „Mjási“, sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Anna Margrét Káradóttir, leikkona frá Þorlákshöfn, ljáir einni persónu sögunnar, Úlfynju, rödd sína.
Í sögunni lendir Mjási í ýmsum ævintýrum og hittir alls konar skemmtilegar persónur sem hafa áhrif á framvindu sögunnar. Þetta er snertihljóðbók á íslensku sem er sérútbúin fyrir börn á öllum aldri. Þetta er saga en lesandinn þarf að hjálpa Mjása í gegnum ævintýrin til þess að geta lesið áfram. Auk þess er þarna að finna aukaefni eins og smáþrautir og púsl.
Fékk að ýlfra og urra
Anna Margrét segir að hún hafi kynnst Guðmundi Auðunssyni. einum höfundi sögunnar, í þegar hún var í leiklistarnámi í London. „Þannig kynntumst við og hann hafði svo samband við mig við gerð hljóðbókarinnar og fékk mig til að lesa inn fyrir úlfynjuna Rósu sem er eini kvenkarakterinn í sögunni. Það var virkilega skemmtilegt að fá að taka þátt í þessu verkefni. Að fá að ýlfra aðeins og urra.”
Anna segir jafnframt að það hafi verið mikill heiður að vinna að þessu verkefni. „Mér þykir vænt um að strákarnir hafi leitað til mín fyrir þetta verkefni.“
Fyrir börn á aldrinum 2-8 ára
Eins og fyrr segir er sagan um Mjása fyrsta snertihljóðbókin sem gerð er hér á landi sem er framleidd af fyrirtækinu Tóngreini efh. Höfundar sögunnar eru þeir Guðmundur Auðunsson, Hilmar Þór Birgisson og Ægir Örn Ingvarsson. Öll tónlistin er framsamin sérstaklega fyrir söguna og er hún ætluð börnum á aldrinum 2-8 ára.