Í dag kl. 14-16 gefst síðasta tækifærið til þess að teikna með leiðsögn á sýningunni Ásjóna í Listasafni Árnesinga.
Katrín Briem myndlistarmaður og myndmenntakennari til margra ára leiðbeinir þá gestum aftur.
Góð stemmning myndaðist í safninu síðast þegar Katrín leiðbeindi gestum í Listasafni Árnesinga og nú gefst aftur tækifæri til þess að njóta þess. Hún býr að langri reynslu og hefur fengist við myndlist frá blautu barnsbeini sem dóttir listamannsins Jóhanns Briem. Katrín nam síðan myndlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og við listaháskóla í Hollandi þar sem hún lagði stund á grafík og teikningu. Hún var skólastjóri Myndlistaskólans í Reykjavík í 18 ár og kennir nú við þann skóla og einnig Myndlistaskóla Kópavogs.