Nýverið kom út Flóruspilið eftir Guðrúnu Bjarnadóttur í Hespuhúsinu í Ölfusi. Spilið er í anda „veiðimanns“ þar sem markmiðið er að safna fjögurra spila samstæðum en í stað hefðbundinna spila þá er spilað með íslenskar plöntutegundir. Á spilunum eru upplýsingar um grasnytjar og þjóðtrú ásamt latínuheiti, gróðurlendi og ætt.
„Upphaflega hugmyndin að spilinu kemur frá því að ég kenndi plöntugreiningu við Landbúnaðarháskólann og fór með fólk í grasafræðslugöngur í Mývatnssveit og Skaftafell þegar ég var landvörður. Þá áttaði ég mig á því hve þekkingin er lítil á algengustu tegundunum í kringum okkur,“ segir Guðrún í samtali við sunnlenska.is. „Nú býr fólk í borgum og bæjum og tengslin við náttúruna eru að rofna en áhuginn er til staðar.”
„Spilið er unnið upp úr bókinni Grasnytjar á Íslandi, þjóðtrú og saga sem kom út árið 2018. Það er hugsað til fróðleiks og skemmtunar. Stokkurinn er stærri en hefðbundinn spilastokkur vegna fræðslunnar sem fylgir. Falleg blómamynd eftir listamanninn Eggert Pétursson skreytir spilin og umbúðirnar en spilið kemur í fallegum kassa. Spilað er með 13 plöntutegundir og ef vel gengur með fyrsta stokkinn þá bætast við fleiri stokkar með nýjum tegundum við á næstu árum,“ segir Guðrún.
Guðrún segir spilið vera fyrir alla fjölskylduna. „Fyrir foreldra til að spila með börnunum eða afa og ömmu til að spila með barnabörnunum. Stærðin á spilunum hentar kannski ekki litlum puttum og sá aldur er væntanlega ekki læs heldur og því spila þau með öðrum í „liði“ til að byrja með og þannig fer líka fræðslan fram. Lítil börn eru eldsnögg að læra að þekkja tegundirnar á mynd þó þau geti ekki lesið nafnið. Börn eru svo dásamlega miklir svampar á upplýsingar. Það er líka hægt að nota spilið sem samstæðuspil. Með haustinu er stefnt að því að spilið komi út á ensku og pólsku.“
Guðrún segir að það sé ótrúlega mikil vinna sem fari í að koma svona spilum í framleiðslu. „Það eru líklega um tvö ár frá því ég byrjaði að vinna í þessu fyrir alvöru og þá er ég ekki að tala um heimildaöflun en hún hafði þegar farið fram fyrir bókina mína Grasnytjar á Íslandi, þjóðtrú og saga. Það gekk á ýmsu með að finna aðila til að prenta spilin í þessari skrýtnu stærð en það endaði með að verkefnið fór í pásu meðan ég gaf út jurtalitapúsluspilið mitt fyrir síðustu jól. Loksins small allt saman með umbúðir, hönnun og prentun sem fer fram bæði á Íslandi og erlendis.“
Hægt er að nálgast Flóruspilið í Hespuhúsinu í Árbæjarhverfinu í Ölfusi. „Svo er hægt að panta það á netinu, á www.hespa.is. Þar má einnig sjá hvar spilið er í sölu annars staðar, en þessa dagana er verið að dreifa því í verslanir. Hespuhúsið er jurtalitunarvinnustofan mín sem er opin vinnustofa þar sem gestir geta kíkt í litunarpottana og fræðst um þetta gamla handverk, að jurtalita band.“
„Hespuhúsið gengur út á fræðslu og umræðu um grasnytjar og gamla tíma, þar er setustofa með lítilli þjóðháttadeild sem gaman er að skoða og á vinnustofunni er til sölu jurtalitað band, einband og léttlopi ásamt jurtalitapúsluspilinu mínu. Hespuhúsið er opið alla daga í sumar frá 9-18, nema sunnudaga, en svo er opið eftir samkomulagi hvenær sem er. Það er enginn tími heilagur í Hespuhúsinu,“ segir Guðrún að lokum.