Næstkomandi laugardagskvöld kl. 19:00 verða haldnir svokallaðir teppatónleikar í fyrsta skipti í Halakoti 14 í Flóahreppi.
„Ég er búin að hafa þessa hugmynd lengi í kollinum um að vera með teppatónleika úti í garði þar sem fólk getur komið saman og notið allskonar tónlistar undir berum himni á teppinu sínu eða á tjaldstólnum,“ segir Berglind Björk Guðnadóttir, annar skipuleggjandi tónleikanna, í samtali við sunnlenska.is.
„Ég er sjálf að ljúka burtfararprófi í klassískum söng og hef skipulagt nokkra tónleika áður en þessir eru aðeins út fyrir kassann og ótrúlega skemmtilegt verkefni. Hér er ég að bjóða fólki heim í garðinn minn sem gerir þetta persónulegra og fólk kemst nær tónlistinni á þann hátt þar sem umhverfið er heimilislegra held ég,“ segir Berglind.
Lágstemmt og notalegt
„Ég fékk vinkonu mína hana Ingunni Jónsdóttur til að skipuleggja þetta með mér. Planið er að hafa þetta árlegt en þessir tónleikar á laugardaginn eru algjör frumraun. Okkur langaði að hafa tónleikana lágstemmda og notalega svo fólk gæti haft það kósý, svo ég sletti nú aðeins,“ segir Berglind.
Berglind segir að þær stöllur hafi einblínt á nærumhverfið sitt í ár. „Við vildum bjóða ungu og efnilegu tónlistarfólki í Flóanum og í kring að koma og spila. Að þessu sinni verða tónleikarnir fríir en frjáls framlög fyrir þá sem vilja styrkja tónlistarmennina,“ segir Berglind.
Á tónleikunum koma fram þau Hörður Bjarni Harðarsson, Sigurjón Sveinsson, Kolbrún Katla Jónsdóttir, Inga Jóna Þorbjörnsdóttir, Sara Ægisdóttir og jafnvel einhverjir fleiri.
„Allir eru velkomnir og við hvetjum fólk til að grípa teppið, nestið og lopapeysuna með sér. Léttar veitingar verða í boði. Svo fólk villist ekki í Flóanum þá er beygt inn Langholtsafleggjarann en við munum merkja leiðina í Halakot 14 vel,“ segir Berglind að lokum.